09.08.1915
Neðri deild: 28. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 867 í B-deild Alþingistíðinda. (1621)

70. mál, Hafnarfjarðarvegur

Framsögum. (Bjarni Jónsson):

Jeg askal ekki fara langt út í lögskýringar á málinu, en vandræðin stafa af því, að nokkur kafli vegarins liggur í Kjósarsýslu, en þar sem hún hefir ekki nein not vegarins, afsegir hún að viðhalda þessum vegarkafla, sem eðlilegt er. Um þetta þyrfti því sjerstök lagaákvæði, og ekki gott að skylda aðra sýslu til að annast viðhald vegar, sem liggur utan takmarka hennar. En hins vegar ekki sanngjarnt að skylda Kjósarsýslu til að annast viðhald vegar, er hún hefir ekkert gagn af. Vill ekki einu sinni hafa vegarkaflann í tölu sýsluvega. Hjer sjá allir að er um vandkvæði að ræða.

Aðalatriðið er hjer það; að rannsókna þarf við, til þess að sjá með vissu, hvernig heppilegast verði að láta haga til með veg þenna, hvers konar vegur þetta eigi að verða í framtíðinni. En þar til þær rannsóknir yrðu gjörðar og málið komið í kring, ætti ekki að neyða sýslurnar til að halda honum við. Það er þetta, sem frumv. fer fram á, að vegurinn sje gjörður að þjóðvegi, þar til rannsóknir sjeu gjörðar, og landssjóði sje á meðan gjört að skyldu að viðhalda honum.

Jeg sje ekki ástæðu til að metast á um viðhald á vegum, nje vitna í vegagjörðir í sveitum, því að þar er landssjóðsstyrkurinn meiri en hjer í Reykjavík og Hafnarfirði. Væri síst þörf að telja eitthvert lítið viðhaldsfje eftir þessum bæjum, þar sem hjer er 1/6 hluti þjóðarinnar. Ekki gjöri jeg það, þó jeg vilji sem mestar umbætur á vegum í Dalasýslu. Mjer virðist Alþingi ætti sannarlega að fara hjer eftir tillögum landaverkfræðings; þær eru ekki þann veg, að mönnum þurfi að standa stuggur af þeim. Og dýrara verður fyrir landssjóð, ef umræður verða hjer langar, en þó að frumvarpið nái fram að ganga.