18.08.1915
Neðri deild: 36. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 871 í B-deild Alþingistíðinda. (1632)

103. mál, vatnssala í kaupstöðum

Forseti:

Út af því, sem fram fór hjer 1 deildinni í lok síðasta fundar, þegar samþ. var að hætta umr. um síðasta mál á dagskrá (Þorlákshafnarkaup), finn jeg ástæðu til að lýsa yfir því, að jeg tel það eitt rjett samkvæmt 40. gr. þingskapanna, að tillaga um að umræðum skuli lokið, fyrirvaralaust, sje borin undir atkvæði að loknu máli þess þingmanns, er þá hefir orðið, en að það sje ekki heimilt að fresta atkvæðagreiðslu um þetta atriði, þangað til þeir þingmenn hafa lokið máli einu, er hafa beðið sjer hljóðs, þegar tillagan kemur fram, nje heldur að bera upp tillöguna með þeim fyrirvara, án samþykkis tillögumanna.

Jeg vil því leyfa mjer að skjóta því til háttv. þm, er þeir bera upp ósk um að umræðum skuli lokið, að taka það skýrt fram, hver sje tilætlun þeirra í þessu efni.

Enginn tók til mála um frumvarpið.