09.08.1915
Neðri deild: 28. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 874 í B-deild Alþingistíðinda. (1638)

82. mál, Stykkishólmsvegur

Framsögum. (Bjarni Jónsson):

Jeg skal geta þess, að milli þingsáltill. um endurskoðun vegalaganna, er síðar kemur fram, og þessara vegamála er engin mótsetning. Hún er ekki fram komin til þess að hefta þau.

Jeg skal svo snúa mjer að þessu síðasta vegamáli, sem er enn þá einfaldara og sjálfsagðara en hvert hinna, því að sá vegur, sem þar er um að ræða, er eini þjóðvegurinn á landinu, sem 14. gr. vegalaganna nær ekki til, og breytingin,sem hjer er farið fram á, er, að feld sje burt fyrri málsgr. 18. gr. vegalaganna, til þess að þessi vegur falli undir sömu ákvæði og allir aðrir þjóðvegir. Þetta sýnir, að hjer er um svo sjálfsagða sanngirniskröfu að ræða, að jeg þykist ekki þurfa að orðlengja þetta meira, en vona að það verði samþykt mótmælalaust.