02.08.1915
Neðri deild: 22. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 878 í B-deild Alþingistíðinda. (1651)

67. mál, dýraverndun

Flutningsm. (Sveinn Björnsson):

Jeg og háttv. samþingismaður minn (J. M.) komum fram með þetta frumvarp. eftir tilmælum Dýraverndunarfjelagsins. Eina ákvæðið, sem til er í íslenskum lögum um dýraverndun, er í 299. gr. hegningarlaganna, og er hún á þessa leið :

»Hver, sem verður brotlegur í þrælslegri misþyrmingu eða annarri grimdarfullri og miskunnarlausri meðferð á skepnum, einkum húsdýrum, skal sæta sektum alt að 100 rd. eða einföldu fangelsi alt að 4 mánuðum«.

Það virðist af orðum laganna, að það þurfi meira en lítið illa meðferð á skepnum, til þess að verða brotlegur. Og eftir þessum lögum er ekki hægt að framfylgja eftirliti með meðferð á skepnum, svo viðunandi sje.

Frumvarpið fer fram á meiri og betri vernd gagnvart skepnunum en felst í lögum þessum. Hygg jeg, að ekki þurfi mörg orð um þetta, því að öllum ætti að vera það ljóst, að þetta lagaákvæði, sem til er, og tryggja á góða og mannúðlega meðferð á dýrunum,er alls kostar ófullnægjandi. En þó má vera, að rjett væri að athuga þetta mál nokkru nánar í sambandi við næsta mál, útflutning á hrossum.

Jeg hefi ekki hugsað mjer,. að þörf væri á því, að kjósa nefnd í þessu máli, en ef háttv, deild virðist annað um það, skal jeg ekki vera því mótfallinn.