30.07.1915
Neðri deild: 20. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 886 í B-deild Alþingistíðinda. (1680)

41. mál, löggiltir vigtarmenn

Framsm. (Matthías Ólafsson):

Eins og jeg hefi tekið fram, og eftir þeirri niðurstöðu, sem nefndin hefir komist að, þá álít jeg nauðsynlegt, að lögum verði komið á um mælingu á vörum. En við sáum það og, að menn eru almennt ekki færir um að mæla og reikna rjett út; og þess vegna órjettlátt, að leggja þeim þær skyldur á herðar. Nú er svo með ýmsar vörur, að þær eru bæði taldar og vegnar, og hefði verið ástæða til þess, að láta vigtarmenn hafa þar og tölu á hendi, t. d. á gærum. Jeg ætla annars ekki að tala meir um þetta nú, því að nefndin mun áskilja sjer rjett til þess að koma með brtt. við 3. umr. Jeg legg til að brtt. á þgskj. 90 verði samþykt. Jeg býst ekki við að háttv. þingmenn sjái neitt, sem mæli á móti þessu frumv., heldur að alt sje sem mæli með því. Vona jeg því, að frekari umræður þurfi ekki að verða um þetta að sinni.