16.08.1915
Neðri deild: 34. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 891 í B-deild Alþingistíðinda. (1695)

104. mál, útflutningsgjald

Magnús Kristjánsson:

Það gleður mig að heyra háttv. framsögumann (P. J.) viðurkenna það, að fjárlaganefndin hafi ekki athugað þetta mál vel, því

að það gefur mjer ástæðu til að ætla, að hún falli þá fremur frá þessu frv. sínu. Mjer heyrðist á hv. þm. S.-Þing. (P. J.), að honum þætti jeg taka illa í málið, þegar jeg sagði, að höfð væru endaskifti á því, sem gjört var í málinu 1907. Jeg get ekki sjeð, að jeg hafi ofmælt. Þegar einhver — hvort það eru nú heldur síldarútgjörðarmenn eða aðrir — biðja þingið um hjálp, þá get jeg ekki kallað það annað en endaskifti, þegar þingið vill veita hjálpina á þann hátt, að fara eftir fjenu ofan í vasa þeirra, sem um hjálpina biðja. Jeg ætla nú að minna háttv. þm. S.-Þing. (P. J.) á það, að síðastl. ár var ekki veitt til strandvarna norðanlands úr landsjóði, nema 3000 kr., en á sama tíma námu Sektir fyrir landhelgisbrot á því svæði fullum 15 þús. kr. Þetta fje rennur í landhelgissjóðinn, svo að með nokkrum sanni má segja, að landið græði stórfje á landhelgisvörnunum, sem síldarútvegsmenn norðan lands hafa kostað að hálfu, að minsta kosti. Það væri því hægt að krefjast þess með fullri sanngirni, að landið tæki að sjer strandvarnirnar skilyrðislaust, eða að minsta kosti einhver hluti sektarfjárins rynni til þessa. Jeg skal svo ekki fjölyrða meira um þetta mál. Jeg veit ekki, hvort mögulegt verður fyrir mig, að komast að samningum við háttv. fjárlaganefnd um þetta mál, en til þess slíkt sje mögulegt, er eina leiðin, að hæstv. forseti tæki málið út af dagskrá í þetta skifti og frestaði annari umræðu. Jeg vil því ítreka tilmæli mín um það við hæstv. forseta.