16.08.1915
Neðri deild: 34. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 894 í B-deild Alþingistíðinda. (1701)

104. mál, útflutningsgjald

Sveinn Björnsson:

Jeg hefi ekki heyrt allar umræðurnar, en jeg heyrði, að háttv. þm. Dal. (B. J.) leit svo á, að með þessu frumv. væri verið að svifta menn eignum þeirra að ástæðulausu. Frá upphafi var það ætlunin með þessu ákvæði, að þessum hluta sektanna skyldi varið til eflingar íslenskum síldarútvegi. Nú er mjer spurn: Hvað mikið myndi hvern einstakling muna um það, sem honum bæri af þessu fje? Myndi nokkurs manns útgjörð geta oltið á því? Ef þessu verður ekki svarað játandi, þá verð jeg að segja, að ákvæðið nær betur tilgangi sínum, ef þessu fje verður varið til að verja landhelgina. Hjer er ekki um annað að ræða en að breyta um aðferð til að gjöra hið sama. En ávinningurinn er sá, að með því að nota peningana á þennan hátt, koma þeir vafalaust að meiri notum. Einu sinni hefir áður verið breytt um aðferð í þessu efni, með lögum nr. 18, 11. júlí 1911. Þá var ákveðið, að þessu fje skyldi úthlutað milli útgjörðarmanna. Hjer er aftur verið að breyta um aðferð. Jeg get ekki skilið, hvernig á því stendur, að þetta frumv. skuli mæta mótþróa. Jeg er sannfærður um, að allir þeir menn, sem hlut eiga að máli, mundu harðánægðir með þessa breytingu.