10.07.1915
Efri deild: 3. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 234 í B-deild Alþingistíðinda. (175)

18. mál, útflutningsbann á breskum vörum

Ráðherra :

Frumv. þetta er lagt hjer fram samkv. 11. gr. stjórnarskrárinnar, þar sem svo er mælt fyrir, að jafnan skuli leggja bráðabirgðalög þau, sem konungur af brýnum ástæðum verði að gefa út milli þinga, fyrir næsta Alþingi á eftir. En bráðabirgðalög þessi eru svo til komin, að bretski ræðismaðurinn hjer benti landsstjórninni á, að stórum hægara mundi að fá leyfðan hingað innflutning á ýmsum vörum frá Englandi, ef útflutningur á þeim hjeðan væri bannaður með lögum. Stjórnarráðið bar svo mál þetta undir Velferðarnefndina, og var hún einhuga um, að sjálfsagt væri að fara eftir bendingum ræðismannsins. Það er ekki heldur gott að sjá, að lög þessi geti bakað neinum tjón, því að vörur frá Bretlandi eru víst mjög sjaldan útfluttar hjeðan, að kolum undanteknum. Ef til vill væri þó rjettast að skipa nefnd, til þess að íhuga frv., því að einu atriði þess væri má ske heppilegt að breyta nokkuð.