07.09.1915
Neðri deild: 53. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 924 í B-deild Alþingistíðinda. (1772)

138. mál, verkfall opinberra starfsmanna

Ráðherra:

Jeg skal láta mjer nægja að svara háttv. þm. Dal. (B. J.) mjög stutt.

Það er þá fyrst, að hann hjelt því fram, að þetta bryti ekki bág við fjárveitingarvald löggjafarvaldsins, því að það veitti ekki laun hverjum einstökum þessara manna. Þetta vissi jeg mætavel áður. En háttv. þm. Dal. virðist ekki hafa hugmynd um það, að þingið veitir heildarupphæðina, og samkv. 24. gr. stjórnarskrárinnar má ekki greiði neitt fje, nema heimild sje fyrir veitingunni í fjárlögunum. Það situr síst á löggjafarþinginu, að gjöra sitt til að þessi grein verði brotin. Annars var fátt annað en þetta í seinni ræðu háttv. þm. Dal., sem nokkru máli skiftir.

Hann sagði, að gjörðardómurinn væri fyllilega tryggilegur þannig skipaður. Jeg býst við, að það sje ósköp svipað og gjörist um gjörðardóma. Stundum sitja í þeim góðir menn, en stundum ekki. Til þess að hv. þm. Dal. (B. J.) væri viss um, að gjörðardómurinn yrði tryggilega skipaður fyrir starfsmennina, þá þyrfti þann að vera öðru vísi skipaður. Það myndi jafnan verða svo, að sá maður, sem tilnefndur væri í dóminn af þeirra hálfu, hjeldi fram þeirra kröfum, og sá, maður, sem stjórnin tilnefndi, hjeldi fram hennar kröfum. Þá færi svo, að alt valdið yrði lagt í hendur þess eina manns, sem yfirdómurinn skipaði.

Jeg held að það sje svo ekki ástæða til að vera að karpa meira um þetta mál við háttv. þm. Dal. (Bjarni Jóns. son: Jeg er líka dauður). Það er rjett, þm. er dauður. Ef jeg hefði munað eftir því, þá er jeg ekki viss um að jeg hefði tekið til máls, því að mjer er ekkert ljúft að vera að tala við framliðna menn. .