18.08.1915
Neðri deild: 36. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 926 í B-deild Alþingistíðinda. (1778)

58. mál, ritsíma og talsímakerfi Íslands

Ráðherra:

Jeg býst við því, að nefnd verði skipuð, til þess að fjalla um þetta mál, og vil því láta þess getið henni til athugunar, að stjórninni hefir borist brjef frá landsímastjóranum, þar sem farið er fram á það, að 6. gr. símalaganna sje breytt svo, að í hana sje sett heimild til að láta reisa hjer loftskeytar stöð, þótt eigi dragi hún til útlanda. Eins og tekið var fram hjer í deildinni um daginn, er það vafasamt, hvort nú er heimild til að reisa slíka loftskeytastöð. Jeg vildi að eins benda nefndinni á þetta henni til athugunar, en býst við, að jeg komi með brtt. við frumv. við næstu umræðu, ef nefndinni sýndist ekki að gjöra það.