18.08.1915
Neðri deild: 36. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 927 í B-deild Alþingistíðinda. (1779)

58. mál, ritsíma og talsímakerfi Íslands

Björn Hallsson:

Þetta frumvarp, sem hjer liggur. fyrir, kemur frá háttv. Ed. Jeg býst við, að nefnd verði kosin hjer í deildinni, til þess að athuga málið. Þess vegna stend jeg upp til þess að benda henni á, að hjer er farið fram á breytingu frá núgildandi símalögum, viðvíkjandi símanum, sem á að leggja frá Egilsstöðum niður Fljótsdalshjerað. Í núgildandi lögum er ákveðið, að síminn skuli liggja frá Egilsstöðum, út Hjeraðið um Unaós til Borgarfjarðar, og kostnaðurinn við þenna síma er áætlaður 32 þús. kr. Aftur á móti leggur landsímastjórnin nú til þá breytingu, að síminn skuli ekki lagður alla leið til Unaósa, heldur yfir Sandaskörð, sem er fjallvegur milli Hjeraðs og Borgafjarðar, beina leið til Borgarfjarðar, og gjörir hann ráð fyrir, að sú lína kosti um 25,500 kr. Nú er í þessu frv. frá Ed. ákveðið, að auk þess skuli liggja lína frá Seyðisfirði til Loðmundarfjarðar, og kostnaðurinn við hana er áætlaður um 7000 kr., svo að ef báðar þessar línur verða lagðar, þá er kostnaðurinn líkur sem við að leggja upphaflegu línuna um Unaósi til Borgarfjarðar. En nú kemur ekki skýrt fram í þessu frv.. að línu eigi að leggja frá Egilsstöðum niður Hjerað til Borgarfjarðar, heldur virðist mjer megi skilja frv. svo, að þar eigi engin lína að koma. En það er ekki meining símastjórans, heldur, að auk hennar komi þessi stúfur frá Seyðisfirði til Loðmundarfjarðar. Þessu vil jeg skjóta til háttv. nefndar, að hún athugi og skýri málið, svo hægt sje, að sjá hvað meint er með þessu frv.