04.09.1915
Neðri deild: 51. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 940 í B-deild Alþingistíðinda. (1792)

58. mál, ritsíma og talsímakerfi Íslands

Framsm. (Sigurður Eggerz):

Út af fyrirspurn háttv. þm. V.-Ísf. (M. Ó.) um, hvort hægt væri að benda á, að loftskeytastöð, eins og sú, sem hjer er farið fram á að byggja, geti komið sjávarútveginum að haldi, vildi jeg leyfa mjer að taka fram, að jeg fæ ekki betur sjeð en þetta gæti orðið með ýmsu móti.

Fyrst og fremst veit jeg ekki betur en að svo hafi verið litið á, að brýna nauðsyn bæri til að gjöra eitthvað til öryggis lífi sjómanna, og háttv. þm. V.Ísf. (M. Ó.) hefir sjálfur borið fram tillögu til þingsályktunar um að skora á stjórnina að rannsaka orsakir slysa á sjó. Með því að byggja þessa stöð, er ein tryggingarráðstöfun gjörð til að bjarga lífi sjómanna, því jeg gjöri ráð fyrir því, að þegar hún er komin upp, muni togararnir fá loftakeytatæki. Í öðrum löndum er það talin sjálfsögð öryggisráðstöfun til að bjarga lífi sjófarenda, að skip sjeu útbúin með slík tæki. Og í Ameríku er það beint gjört að skilyrði með lögum, að skip, sem flytja ákveðna tölu farþega, hafi loftskeytaútbúnað. Þetta sýnir best, hve nauðsynleg menn álíta loftskeytatæki annarstaðar. Enda er hægt að benda á ótal dæmi um það, að mörgum mannslífum hefir verið bjargað, bara fyrir það að loftskeytatæki voru til. (Matth. Ólafsson: Af öðrum skipum). Satt er það, að oftast nær er mönnum í neyð bjargað af öðrum skipum, sem kvödd eru til hjálpar með loftskeytum. En ef t. d. skeyti kæmi frá einhverjum togaranna til stöðvarinnar hjer, að hann væri í háska, þá má venjulega fá hjer skip á höfninni til þess að fara út og bjarga.

Auk þess, sem stöðin hjer gæti sent skeyti til skipa í hafi, um að halda togaranum til hjálpar. Það þarf því ekki annað, en vísa til reynslu annara þjóða í þessu efni. Og þetta atriði, að tryggja líf sjómannanna, tel jeg það lang þýðingarmesta atriði í þessu máli. En svo má benda á ýmislegt fleira, þar sem loftskeytastöð getur komið sjávarútveginum að haldi. T. d. er hægt að senda togurunum skeyti um, hvar best fiskist, hvar þeir geti fengið kol og yfirleitt ráða fram úr ótal spursmálum, sem fyrir kunna að koma. Þegar stöðin er bygð, fá útgjörðarmenn hvöt til að setja loftskeytatæki í skip sín, enda nú æði margir, ef ekki allir, erlendir nýtýsku togarar útbúnir með loftskeytatækjum.

Þar sem háttv. þm. V.-Ísf. (M. Ó.) mintist á ummæli mín um landbúnaðinn, þá skal jeg geta þess, að jeg nefndi ekki landbúnaðinn í sambandi við loftskeytastöðina, heldur í sambandi við óeðlileg höft á aðalatvinnuvegum landsins.