04.09.1915
Neðri deild: 51. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 941 í B-deild Alþingistíðinda. (1793)

58. mál, ritsíma og talsímakerfi Íslands

Bjarni Jónsson:

Háttv. 1. þm. Húnv. (G. H.) talaði um, að þingmönnum væri ofætlun að greiða atkvæði um tillögu, sem ekki kæmi fram fyrr en á fund væri komið. Ef hann hefir mælt það til brtt. minna, þá eru þau ummæli ekki á rökum bygð, því að fyrri brtt. mín kom fram, þegar máli þessu var frestað um daginn, og hefir verið í vörslum þingmanna síðan, en síðari tillagan er að eins orðabreyting. Jeg hafði nefnt Patreksfjörð, sem upphaf símalínunnar; en síðan hefir landssímastjórinn sagt mjer, að það væri ekki ráðið, hvort línan byrjaði þar, það gæti verið, að hún yrði látin byrja í Bíldudal.

Háttv. 1. þm. N.-Múl. (B. H.) kom með þá mótbáru, að engin kostnaðaráætlun væri til um símalínur þær, sem jeg hefi borið fram. En sama mótbáran á við um alla 3. flokks síma. Um Barðastrandarsímann er heldur engin kostnaðaráætlun, það er ekki einu sinni ákveðið, hvar hann eigi að byrja. Hitt ætla jeg að væri nægar upplýsingar, sem jeg gaf, að vegalengdin, sem báðar þessar símalínur eiga að ná yfir, eru samtals 40 stikuþúsundir og að engar torfærur eru á leiðinni. Það er því engin ástæða gegn aukalínunum, að ekki sje til kostnaðaráætlun. Það er ekki rjett hjá háttv. 1. þm. Húnv. (G. H.), að stálþráður sje ekki ódýrari en koparþráður. Að því þarf engum getum að leiða; allir vita það.

Ein ástæða, sem háttv. 1. þm. N.-Múl. (B. H.) bar fram gegn brtt. minni, var sú, að hún mundi verða frv. að falli í Ed , ef hún væri samþ. hjer. Hvernig getur hann vitað það? Hvaða ástæða er það móti tillögunni, þó að einhver þingmaður ímyndi sjer, að Ed. verði henni mótfallin? Ed. er ekki svo ósanngjörn, að hún fari að fella frumv., þó þessum línum sje bætt við, þegar hún sjer þörfina. Vona jeg, að þm. breyti nú skoðun og greiði till. mínum atkv., þegar hann sjer, hversu spádómar hans liggja í lausu lofti. En þó að þær yrðu frumv. að bana, hvað er þá í hættu? Jú, þá væri símaspotti í hana kjördæmi austur í Múlasýslu í veði. Þess vegna má ekki tefla frv. í neina tvísýnu. Það gjörir ekkert, þótt Dalamenn deyi.

Jeg hefi lagt til að fella loftskeytastöðina úr frv., af því jeg vil ekki loftskeytastöð, sem dregur skemra en til Noregs. Það hefir alt af verið þyrnir í mínum augum, að vera upp á þessa Færeyjastöð kominn. Samt er jeg sammála nefndinni um það, að stöðin getur orðið skipum að gagni, þótt hún dragi ekki lengra en til Færeyja. Það er alveg rjett, sem háttv. framsögum. (S. E.) sagði um gagn það, sem skip geta haft af henni. Og jeg vil bæta því við, að ef botnvörpungur strandar austur á fjörum, þá mætti oft senda björgunarskip austur, sem gæti dregið hann heilan út, áður en hann grefst í sandinn. Lítil stöð er ekki lengi að borga sig á þann hátt; til þess þarf ekki marga botnvörpunga. Eins er það, ef útgjörðarmaður fær frjettir um góðan markað erlendis, en skip hans úti í sjó, þá getur hann sem því skeyti, að fara strax út, í stað þess að koma inn áður, eins og ráð hafði verið gjört fyrir í fyrstu.

Nú vil jeg sýna minn samvinnu þýðleik og taka aftur till. mína um að fella loftakeytastöðina í burtu, ef framsm. vill lýsa því yfir, að slík smástöð, sem gjört var ráð fyrir að reisa, tefji ekki fyrir stóru stöðinni. Jeg vil fá að vita, hvernig turninn á að vera bygður. Það er satt, að vjelarnar í litlu stöðinni má alt af selja aftur, en turninn þarf að vera því hærri, sem stöðin á að draga lengra, og því hærri sem turninn er, því traustari verður undirstaðan að vera. Verði byggingunni hagað svo, að neðri hluti hennar geti orðið undirstaða að stærri turni, og ef framsögum. lýsir yfir því, að þessi stöð tefji ekki fyrir því, að stærri stöð verði reist, þá get jeg tekið aftur till. aftur, með tilliti til þess gagns, sem sjávarútvegurinn getur haft af þessari litlu loftskeytastöð.