04.09.1915
Neðri deild: 51. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 943 í B-deild Alþingistíðinda. (1794)

58. mál, ritsíma og talsímakerfi Íslands

Sveinn Björnsson.; Jeg bjóst ekki við, að svo langar umræður mundu verða um þetta mál. Jeg hjelt, að allir væru sammála um, að hjer væri um verulega nauðsyn að ræða. Mig furðaði sjerstaklega á því, að háttv. þm. V.Ísf. (M. Ó.) skyldi standa upp og mæla á móti því, að bygð væri loftskeytastöð:

(Matthías Ólafsson: Jeg talaði ekki á móti því). Mjer skildist ekki betur, en hafi hann ekki gjört það, þá bíð jeg afsökunar. En hann hjelt því þó fram,

að botnvörpungaútgjörðin mundi lítið eða ekkert gagn hafa af loftskeytastöðinni. Út af þeim ummælum vildi jeg bæta fáeinum orðum við það, sem aðrir hafa sagt.

Í fyrsta lagi er varla við því að búast, að botnvörpungarnir fái loftskeytatæki, fyrr en stöð er komin á landi, og geta þeir þá ekki orðið hver öðrum að liði á meðan.

Í öðru lagi er það fjarri því, að þýðingarlaust sje að hafa stöð á landi í hættutilfellum. Það er oft, sem botnvörpungarnir gætu kallað hver á annan, en í mörgum tilfellum gætu þeir þurft að fá hjálp úr landi. Það geta komið fyrir þannig lagaðar bilanir á skipum, sem gjöra það að verkum, að þau farist eftir 1–2 daga, ef ekki næst til hjálpar.

Fleira mætti telja upp, sem væri til hagnaðar fyrir botnvörpungaútgjörðina, en jeg ætla að snúa mjer að öðru.

Það má líka líta á það í þessu sambandi, að þegar mikið fiskast, getur hver dagurinn staðið á tugum þúsunda. Það varðar botvörpungana ekki litlu, að geta fengið að vita það, á hvaða tíma fiskurinn gengur á þessum og þessum stað. Það skiftir t. d. miklu, að fá að vita það með vissu, þegar fiskurinn er að minka á Bankanum, hve nær hann kemur á Hvalbak. Hjer er því um auknar tekjur landssjóðs og einstakra manna að ræða. Og þetta nær ekki eingöngu til Suðurlands — það varðar hag alla landsins: Yfirleitt hygg jeg það, að hver sá, er nokkra nasasjón hefir af sjávarútvegi, hljóti að sjá, að hjer getur verið um gríðarmikla hagsmuni að ræða. Enginn hefir haldið því fram, að þetta sje útveginum til tjóns, og þegar um svona mikla hagsmöguleika er að ræða, þá get jeg ekki skilið það, að unnendur sjávarútvegarins leggi á móti þessu frumv. Jeg get tekið undir það með háttv. framsm. (S. E.), að jeg álít meiri þörf á þessu fyrirtæki en öllum þeim símum, sem ætlast er til að verði lagðir á næsta fjárhagstímabili. Það er ekki rjett af háttv. þm. Dal. (B. J.), að leggja móti þessu frumv., þótt við getum ekki strax reist stöð, er dragi til útlanda. Við meðmælendur þessa frv., höfum hver eftir annan lýst yfir því, að við óskuðum þess, að slík stöð yrði reist sem fyrs. En þótt ekki sjeu tök á því í ár, þá tjáir ekki, að vilja ekki koma neinu af því, er til var ætlast, í framkvæmd, vegna þessa. Hann sagði, að athugavert væri að reisa slíka stöð, nema trygging væri fyrir því, að hún kæmi að notum, er stærri stöð yrði reist. En það hefir þegar verið sýnt fram á það, af þeim mönnum er tekniskt vit hafa, að hún geti komið að fullum notum, að minsta kosti mest af henni, er stærri stöðin verður reist. Jeg ætla ekki að fara að hætta mjer út í deilu um þetta tekniska atriði, en vil benda háttv. þm. á álit ritsímastjórans, er prentað er með nefndarálitinu í fyrra. Jeg skal svo ekki orðlengja þetta frekar, en vænti þess, háttv. þingmenn, þar á meðal háttv. þm. Dal. (B. J.), beygi sig fyrir þeim rökum, er færð hafa verið fyrir málinu og samþykki frumv.