19.07.1915
Efri deild: 10. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 238 í B-deild Alþingistíðinda. (180)

18. mál, útflutningsbann á breskum vörum

Framsögumaður (Steingr. Jónsson):

Það er samkvæmt bendingu frá hæstv. ráðherra, að brtt. á þgskj. 56 er fram komin. Eins og 2. gr. frumv. nú er orðuð, er heimild stjórnarinnar, til þess að leggja útflutningsbann á vörum, sem flytjast til Íslands frá öðrum löndum en Bretlandseyjum, skilyrði bundin, en öll ástæða virðist til að hafa heimildina víðtækari, svo að stjórnin t. d. geti lagt útflutningsbann á vörur, sem hún álítur að of lítið sje til af í landinu. Hjer með væru þá lög frá 3. ágúst 1914 tekin upp í frumv., og mættu þau þá falla úr gildi. Nefndin vill fastlega ráða háttv. Ed. til að samþykkja frumv. með þessari breytingu.