03.09.1915
Neðri deild: 50. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 951 í B-deild Alþingistíðinda. (1802)

64. mál, aðflutningsbann á áfengi

Framsögum. meiri hl. (Sveinn Björnsson) :

Jeg vænti þess, að allir háttv. þingmenn hjer í deildinni hafi lesið bæði nefndarálitin á þgskj. 654 og 691. Ef svo er, þá er mönnum víst ljóst, hvað það er, sem milli ber og ljósar þær ástæður, er við færum fyrir því, að við viljum samþykkja frv. með þessum breytingum, er við leggjum til. Eins og háttv. þingmönnum er kunnugt, þá er þetta frv. komið fram til þess, að bæta úr bannlögunum. Tilgangurinn er ekki annar en sá, að fá skýrari þau ákvæði, sem ekki eru nægilega ljós í bannlögunum, og sumpart að bæta þá galla, sem á þeim voru og sem verður að bæta úr, ef lögin eiga að haldast í gildi. Meiri hlutinn fær ekki skilið, hvernig á því stendur, að menn skuli ekki vera alveg ákveðnir í þessu máli, annað hvort að nema lögin alveg úr gildi, eða þá að gjöra þau svo úr garði, að þeim verði sem minst áfátt. Þetta frv. fer ekki fram á neina stefnubreytingu í þá átt, að útrýma áfengisnautn úr landinu. Minni hlutinn mun heldur vera á þeirri skoðun, að lögin sjeu til bóta en hitt, en úr því þeir vilja ekki afnema lögin, þá er mjer óskiljanlegt með öllu, að þeir skuli ekki vilja bæta þau. Ef einhverjir gallar eru á einhverjum lögum, sem gjöra framkvæmd þeirra erfiða, þá er það beinlínis skylda löggjafarvaldsins, að bæta þá galla, er það hefir tekið eftir þeim. En til allrar óhamingju virðist sú skoðun vera ríkjandi hjá helsti mörgum andbanningum, að best sje að bannlögin sjeu svo ófullkomin, og sýni sig þess vegna svo óheppileg, að menn fái augu sín opnuð fyrir því, að þörf sje að nema þau úr gildi. En þó menn nú hugsi svo, þá mega þeir menn, sem á Alþingi sitja og eru löggjafar þjóðarinnar, ekki gjöra neitt, sem getur orðið til þess, að spilla fyrir lögunum, svo lengi sem þau eru í gildi, heldur ber þeim þvert á móti skylda til, að gjöra þau svo vel úr garði, að sem öruggast sje, að þau verði sem best haldin.

Jeg vil nú leyfa mjer að minnast á brtt. háttv. minni hluta í sem fæstum orðum. Eins og frv. liggur fyrir frá Ed., þá mega læknar útvega sjer eins mikið af áfengi og þá lystir. Það hefir verið deilt töluvert um það í landinu, hvort nokkra nauðsyn bæri til þess, að lyfsalar hefðu annan vínanda í búðum sínum en hreinan spíritus. Æðsti maður læknastjettarinnar hjer á landi segir, að þess þurfi ekki, en meiri hluti allra lækna úti um landið telur það óheppilegt, að þeir geti ekki náð í þau vín, er þeir vilja. Eins og á stendur, þá vill meiri hlutinn gjöra læknunum þetta mögulegt, en á hinn bóginn vill hann setja þau ákvæði inn í frv., að þeir geti einungis fengið þessi vín í gegn um lyfjabúðir. Mikið hefir verið talað um, að hætt væri við misbrúkun frá læknanna hálfu, að þeir mundu nota vínin til neytslu, bæði handa sjálfum sjer og öðrum. Slíkt er ekki tilgangurinn, og þess vegna verður að hafa eftirlit með læknunum, og hægast verður að hafa eftirlit með þeim með því, að láta þá fá, vínin gegn um lyfjabúðirnar, í stað þess að leyfa þeim að útvega sjer það beint frá útlöndum, án nokkurs milligöngumanna.

Í 3. gr. er ákvæði um það, að ekkert íslenskt skip megi flytja áfengi til landsins, nema það, er fara skal til umsjónarmanns áfengiskaupa. Meiri hlutinn er þessu samþykkur hvað þau skip snertir, er vjer eigum, að undanskildum fólksflutningaskipunum. Nefndinni fanst álitamál, hvort ætti að veita mönnunum vín fyrir utan landhelgislínuna. Og með tilliti til þess, að vínbann gæti skaðað fólksflutningaskipin, þá leggur meiri hlutinn það til, að stjórnin geti veitt millilandafólksflutningaskipum undanþágu í þessu efni. Jeg skal þó geta þess, að einn af nefndarmönnum (S. E.) hefir skrifað undir þetta atriði með fyrirvara.

Meiri hlutanum finst varhugavert að herða nú á þessum lagaákvæðum. Að vísu má segja, að á ákvæðunum sje hert í 3. gr. En það, sem þar er gjört, fer ekkert lengra en lögin sjálf í því, að skerða rjett manna til áfengisneytslu; þau snúa sjer að eins að eftirlitinu. Sama er að segja um ákvæðin í 4. gr.

Að hafa lög í landinu, sem ekki má líta eftir með, hvort haldin sjeu, er með öllu óhæfilegt. Þá er miklu betra að nema þau úr gildi. Minni hlutinn álítur varhugavert, að samkvæmt 4. grein frumvarpsins sje ákveðið, að láta ölvaða menn sæta tvöföldum sektum. Það er ekki óvanalegt í útlendri löggjöf, að hegning fyrir tvenns konar brot sje harðari. Enda er alveg sjálfsagt, að sá, sem ekki vill skýra frá því, hvar hann hefir náð í áfengi, sje látinn sæta sektum: annars væri ákvæðið í 13. grein bannlaganna alveg tilgangslaust. Það væri líka eins dæmi í íslenskri löggjöf, ef engin tök væru til þess, að fá menn til að gjöra þá skyldu sína, sem þeim ber samkvæmt lögum. Jeg fjölyrði nú ekki frekar um þetta að sinni, en leyfi mjer að vona, að háttv. deild taki þessu vel, því það má ekki sæmilegt heita, að láta bót á þessum lögum undir höfuð leggjast, fremur en öðrum: