03.09.1915
Neðri deild: 50. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 964 í B-deild Alþingistíðinda. (1807)

64. mál, aðflutningsbann á áfengi

Sigurður Eggerz :

Jeg hefi skrifað undir nefndarálit meiri hlutans með fyrirvara, að því er snertir undanþáguna fyrir fólksflutningaskip, sem eru í siglingum landa á milli. Í frumvarpinu stendur, eftir að það kom ,frá Ed., að ekkert íslenskt skip, er kemur hingað til lands, megi hafa með sjer áfengi, en meiri hlutinn vill heimila stjórninni að veita undanþágu frá þessu. Jeg sje enga ástæðu til þessa, því að jeg lít svo á, að þar sem .um bannland er að ræða, eigi það að láta bannlögin ná einnig til skipa sinna. Enda er það þannig, að sum lönd, sem ekki eru bannlönd, takmarka vínnautn á sjó, þó ekki sje hún takmörkuð á landi. Þannig er mjer kunnugt um, að enskir togarar hafa nú nálega aldrei áfengi meðferðis.

Þetta sýnir, að aðrar þjóðir álíta ekki nauðsynlegt, heldur öllu fremur skaðlegt, að hafa áfengi um hönd í siglingum.

Sú athugasemd, að íslensk skip geti ekki kept við erlend skip, ef þeim sje bannað að hafa áfengi, held jeg að sje ljettvæg. Jeg gjöri ekki mikið úr því, og allur þorri manna vill eina vel ferðast með þeim skipum, sem ekkert áfengi hafa meðferðis. (Matthías Ólafsson: Ekki útlendingar). Það er öðru nær, en að það sjeu allir, er kjósa það heldur. Jeg. talaði nýlega við mann, sem kom frá Ameríku, og hann sagði mjer, að á þeim skipum, sem hann ferðaðist með, hafi áfengis varla verið neytt af nokkrum manni, og mun það ekki vera eins dæmi með þau skipin.

Úr því að jeg er staðinn upp, ætla jeg að minnast á úrskurð þann, er minst var á í Ed., að stjórnin hafi gefið síðastliðinn vetur, um að ekkert annað vín mætti vera í lyfjabúðum en Malagavín. Það kendi misskilnings viðvíkjandi þessu í háttv. Ed., því að þetta var ekkert annað en lögskýring á pharmacopeunni. Hjer á landi gilti pharmacopea donica samkvæmt konungaúrskurði um það efni. Í meginmáli pharma-copeunnar eru að eins nefnd vina medica, en til þess að búa þau til, þarf Malagavín. Samkvæmt því var heimilað að hafa Malagavín í lyfjabúðum, sbr. og 2. gr. bannlaganna, þar sem segir svo, að lyfsalar og læknar megi ekki hafa önnur vín en þau, sem standi á lyfjaskrá.

Í inngangi pharmacopeunnar stendur:

»Vine og andre let tilgængelige Stoffer ere ikke beskrevne í Pharmacopeen«. Þetta verður ekki skilið öðruvísi en svo, að ekki hafi þótt ástæða til að taka vínin í pharmacopeuna, og fyrir því var heldur ekki heimilað að leyfa þau í lyfjabúðunum, sbr. 2. gr. bannl.

Þessi úrskurður er því ekkert annað en lögskýring á lyfjaskránni, og það var skýrt tekið fram, að stjórnarráðið tæki enga afstöðu með úrskurði þessum í læknaágreiningnum um, hvort nauðsynlegt væri að hafa vín til lækninga eða eigi.

Jeg sje svo ekki ástæðu til að taka það upp, er háttv. framsögum. meiri hl. (S. B.) tók fram, en það gladdi mig, að háttv. framsögum. minni hl. (J. J.) skyldi vera þeirrar skoðunar, að svo myndi fara, að andbanningar fjellust á bannlögin. Jeg gjöri líka ráð fyrir að svo fari, því að sú alda, er. hefir risið gegn bannlögunum, mun hjaðna sem bóla.

Jeg hefi minst á það hjer áður í hv. deild, hvað það væri, er bannlögunum stafaði mest hætta af. Það er ekki svo mjög það, hvernig þau sjálf eru sniðin, heldur hitt, að þeir menn, er mestu ráða og efstir eru í mannfjelagsstiganum, anda kalt á móti bannlögunum. En af því, að þessir menn gjöra þetta, álíta aðrir að þetta sje fínt, þeir eru herrar tískunnar í þessu landi, en það hefir reynst alstaðar í heiminum erfitt að berjast á móti tískunni; hún er svo máttug, að hún kemur að minsta kosti smámennum á knje — og smámenni — smámenni —- hvað haldið þjer að þau sjeu mörg í þessu landi ?

En þessi hugsunarháttur verður að breytast; nýir herrar verða að skapa nýja tísku. Bannlögin eiga að lifa í þessu landi, ekki brotin, heldur óbrotin, og þá mun þeim fylgja gifta, sem verður máttugri en tískan, sem skipar nú of hátt sæti.

Þetta vildi jeg gjarna hafa sagt.