07.09.1915
Neðri deild: 53. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 972 í B-deild Alþingistíðinda. (1815)

64. mál, aðflutningsbann á áfengi

Frsm. meirihl. (Sveinn Björnsson):

Mjer þykir leitt, að brtt. þær, er meiri-hluti nefndarinnar hefir borið fram, skuli reynast svo torskildar einstökum mönnum, eftir að háttv. deild hefir leyft, að þær kæmust að, að þessir menn hafa óskað að málið væri tekið út af dagskrá. Ekki síst þar sem ekki er eins erfitt að átta sig á þessum brtt. og annari, er eins stendur á frá háttv. 1. þm. Eyf. (H. H.) í öðru máli hjer á skránni.

En fyrst þær hafa reynst svona erfiðar, þá vil jeg skýra þær með örfáum orðum, til þess að menn greiði ekki atkvæði um þær, án þess að vita hvað þeir eru að gjöra.

Í 1. brtt. felst ekki annað en að leiðrjetta misrjetti, sem orðið hefði, ef læknum hefði verið gjört að skyldu að fá þau lyf, sem um er að ræða, í gegn um lyfsala, en smáskamtalæknum heimilað að fá þau beint frá útlöndum. 1. brtt. fer því fram á, að smáskamtalæknar Önnur brtt. er líka lítil. Það var samþykt hjer við síðustu umræðu, að stjórnarráðið gæti veitt fólksflutningaskipum undanþágu frá bannlögunum. Til þess að búa tryggilegar um þetta er það nú lagt til, að þetta ákvæði gildi að eins um skip, sem rúm hafa fyrir 25 farþega eða fleiri. Það var aldrei tilgangurinn, að undir það mætti skjóta hverjum dalli, sem kynni að geta flutt einn eða tvo farþega, heldur átti það að eina við regluleg fólksflutningaskip.

Þriðja brtt. miðar að því, að milda þá ábyrgð, sem í upphafi var gjört ráð fyrir, að skipatjórar bæru á því, ef skipverjar flytja inn áfengi. Við leggjum það sem sje til, að þeir beri þá því að eins ábyrgð á þessu, ef brotið sannast ekki upp á neinn annara skipverja; það er með öðrum orðum, ekki fyrr en rannsókn hefir farið fram á því, hvort ekki sje einhver annar sekur. Allir sjá að þetta er miklu mildara ákvæði en hitt, sem í frv. stóð, eins og það lá hjer fyrir við 2. umr., og lítur því meiri hl. svo á, sem nú ættu þeir, sem voru á móti því þá, að geta ljeð þessu atkvæði sitt.

Þá er að minnast á 4. gr., sem feld var hjer í deildinni síðast, eins og hún kom frá háttv. Ed. Í henni voru tveir liðir, fyrst og fremst heimild til að taka ölvaða menn fasta og sekta þá, og svo í öðru lagi viðurlög við því, ef maður, sem leiddur yrði fyrir dómara, neitaði þar að segja til þess, hvar hann hefði fengið áfengið. Í núgildandi lögum er það sem sje leyft, að krefja menn sagna um þetta, en það vantar öll viðurlög, ef menn neita því. (Matth. Ólafsson: Þau eiga ekki heldur að vera til). Hv. þm. V.-Ísf. (M. Ó.) er víst ágætur lagasemjari, eftir þessu að dæma. Eða hvernig líst mönnum á það, að taka till viðurlög, öll hegningarákvæði út úr hegningarlögunum? Þá myndi standa þar eftir, að menn mættu ekki stela, ekki svíkja, ekki drepa mann o s. frv., en það kostaði bara ekkert, þótt menn gjörðu það samt. Nei, það, að vilja halda þessu ákvæði, en gjöra það þó ónýtt um leið með þessu, það er að minsta kosti meinloka, sem ekki ætti að vera til í nokkrum þingmanni.

Þetta eru nú allar þessar erfiðu brtt., sem kallaðar hafa verið, og allar miða þær til þess að gjöra frv. aðgengilegra fyrir þá, sem áður höfðu eitthvað út á það að setja. Og jeg er á þeirri skoðun, að allir geti með glöðu geði greitt þeim atkvæði sín, en hina vegar geti þeir tæplega vansalaust látið það undir höfuð leggjast.