30.08.1915
Neðri deild: 46. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 1000 í B-deild Alþingistíðinda. (1839)

120. mál, þingsköp Alþingis

Frsm. meiri hl. (Jón Magnússon):

Háttv. framsm. minni hl. (B. J) þótti það óviturlegt, að nefna guðs nafn í eiðnum. Jeg get ekki kannast við það, en hitt mætti orða, að í sjálfu sjer hafi má ske mátt nægja, að hafa drengskaparheit, en stjórnarskráin heimtar nú beint eið og virðist þá ekki verða hjá því komist, að nefna guðs nafn, enda hefir það ekki komið að sök hingað til; enginn íslenskur þingmaður neitað að vinna eiðinn.

Sami háttv. þm. (B. J.) talaði mjög óvirðuglega um fjárveitingarvald Alþingis, kallaði það vesælasta starf þess o. s. frv. Jeg tel nú, að einstakar fjárveitingar sjeu ekki svo óverulegar, þegar þær nema þetta upp undir 100 þús. kr. og þar um bil. En þetta er nú hans gamla álit, og fáir aðrir munu vera komnir svo langt, að þeir meti það á sama hátt og hann. Hann talaði um, að það væri ekki rjett, að láta fjárveitinganefnd hafa eins mikið vald og hjer er ráð fyrir gjört. Hún ætti eftir hans skoðun eiginlega ekki annað að gjöra en safna skýrslum um þau mál og erindi, er fyrir liggja. Jeg er nú á öðru máli um þetta. Og hvað sem öðru líður, þá er ástæða til að takmarka tillögurjett þingmanna til aukinna útgjalda. Að einstök kjördæmi geti orðið afskift með því lagi, er að vísu hugsanlegt, en hitt er engu síður víst, að með því fyrirkomulagi, sem hingað til hefir verið, hafa mörg kjördæmi, sem átt hafa lægna þingmenn til hrossakaupa, borið miklu meira úr býtum en nokkur ástæða var til.

Jeg mintist á það áðan, hvort þetta ákvæði kæmi í bága við stjórnarskrána. Það er álit meiri hlutans, að svo sje ekki.

Háttv. þm. (B. J.) talaði um, að ekki mætti takmarka ræðufjölda framsögumanns.

Jeg hefi áður reynt að sýna fram á það, að nægilegt sje, að framsögumaður tali þrisvar, og tala háttv. þm. Dal. (B. J.) hefir ekki sannfært mig um hið gagnstæða. Annars er þetta atriði svo vaxið, að háttv. deildarmenn hljóta að geta áttað sig á því, án frekari málalenginga.

Um það, hvernig að verði farið, ef laust verður í Ed. sæti þingmanns, er kosinn er óhlutbundinni kosningu, hefi jeg talað áður, og hefi engu þar við að bæta. Meiri hluti nefndarinnar gjörir þetta ekki að neinu kappsmáli. Honum fanst beinast liggja við, að hinn nýkosni þingmaður kæmi að öllu leyti í stað hins.