30.08.1915
Neðri deild: 46. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 1002 í B-deild Alþingistíðinda. (1841)

120. mál, þingsköp Alþingis

Benedikt Sveinsson:

Jeg kann háttv. þm. Dal. (B. J.) miklar þakkir fyrir tillögur hans í þessu máli. Mig undrar það eitt, að hann skuli vera í minni hluta í nefndinni, jafn sjálfsagðar og mjer virðast þó tillögur hans vera. Það er svo að sjá, sem meiri hlutinn ætlist ekki til, að miklar ræður fari fram á næstu þingum, því að þeir vilja takmarka málfrelsi manna alveg óhæfilega mikið.

Háttv. framsögum. meiri hlutans (J. M.) gat þess, að sjer þætti eiðstafur þeirra sjerlega hátíðlegur. Mjer finst hann ekkert hátíðlegri en eiðstafur hv. þm. Dal., nema síður sje. Mjer finst kenna í eiðstaf meiri hlutans óþarfa málskrúðs og auk þess finst mjer uppruni eiðstafsins ekki vera svo hátíðlegur, að ástæða sje til að halda honum á lofti, því þetta er eins og allir vita, eiðstafur Marðar Valgarðssonar. Þykir mjer eiðstafur sá, sem háttv. þm. Dal. (B. J.) leggur, til að lögleiddur verði, miklu viðkunnanlegri; kann t. d. mætavel við orðatiltækið »að vinna lögeið«. Hitt finst mjer að eins hálfskringilegt málskrúð.

Háttv. framsm. Dal. (B. J.) hefir sýnt það ljóslega, að það væri beint brot á stjórnarskránni, að kjósa nokkurn mann beint til Ed. Mjer finst það vera alveg sjálfgefið,að allir hjeraðskjörnir þingmenn hljóti að vera kosnir til Alþingis en ekki til Ed. Tillaga minni hlutans er því alveg sjálfsögð. Þá get jeg ekki heldur felt mig við, að einstakir þingmenn skuli ekki hafa leyfi til að koma fram með brtt. við fjárlögin. Jeg sje ekki betur en að þetta sje einnig að nokkru leyti brot á stjórnarskránni. Það kemur áreiðanlega ekki vel heim við anda stjórnarskrárinnar, að fela fjárlaganefndinni þannig fjárveitingarvaldið; það er alveg sams konar ofríki eins og vjer segðum við stjórnina, að hún skyldi úthluta öllu fje úr landssjóði, og jeg býst við því, að menn verði mjer sammála um, að það sje þó helst til mikið einveldi. Jeg sje enga tryggingu fyrir því, að fjárlaganefndin verði nokkru gætnari í fjármálum, heldur en meiri hluti Alþingis, og það getur ekki komið til nokkurra mála, að samþykkja annað eins og till. meiri hlutans í þessu efni. Það er þá miklu betra að hætta við að hafa nokkurt þing. Mjer finst, að best sje, að hafa þetta eins og það er nú, að þingið í heild sinni dæmi um það, hvort brtt. skuli komast fram eða ekki.

Jeg leiði minn hest alveg hjá því, að tala um hrossakaup í þessu sambandi. Jeg sje ekki, að þau sjeu á nokkurn hátt útilokuð þótt fjárlaganefndin eigi ein að ráða.

Jeg sje enga ástæðu til þess að takmarka málfrelsi þingmanna, fremur en nú er gjört í þingsköpum. Þótt málfrelsi sje meir takmarkað í sumum öðrum þingum, þá sannar það ekkert. Allir sjá, að nauðsyn er meiri að takmarka málfrelsi þar, sem 400–600 manna sitja saman á þingi, heldur en þar, sem þeir eru einir fjörutíu. Þetta hefir nefndin ekki athugað, þegar hún fór að sníða ákvæði sín eftir erlendum þingsköpum.

Allra verst er mjer við þá breytingatillögu meiri hl., að atkvæðagreiðsla geti verið leynileg, ef fimm þingmenn í efri deild, níu í neðri deild og fimtán í sameinuðu þingi krefjast þess. Mjer finst þetta vera byrjun á því, að þingið verði háð fyrir luktum dyrum. Þetta elur upp óhreinskilni og pretti í stjórnmálum, og er alveg óhafandi. Jeg treysti því, að þessi brtt. verði feld.

Hjer endar handrit skrifarans á „Framhald“ og vantar í allan seinni hluta ræðunnar, en of langt um liðið til þess, að jeg geti nú rifjað hann upp. 20. des. 1915.

Benedikt Sveinsson