26.08.1915
Neðri deild: 43. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 1040 í B-deild Alþingistíðinda. (1861)

93. mál, hagnýting járnsands

Framsm. (Jón Jónsson):

Það er mjög eðlilegt, að hæstv. ráðherra hafi einhverjar athugasemdir að gjöra við þetta frumv. Auðvitað er sjálfsagt, að rannsaka allar ástæður sem best, áður en fullnaðarákvörðun er tekin.

Viðvíkjandi athugasemdum hans um, að betur bæri að athuga, hvort virkilegt fjelag með nægu fje stæði á bak við fyrirtækið, þá skal jeg geta þess, að nefndin gat ekki komið því við. Annars býst jeg í þessu efni við því, að líkt muni hafa staðið á, þegar gefið var einkaleyfið til þess að vinna salt úr sjó. Menn höfðu víst ekki hugmynd um neitt ákveðið fjelag, er þar stæði á bak við. Þrátt fyrir það fanst nefndinni engin ástæða til að hika við að veita þetta leyfi, vegna þess, að engin hætta gæti stafað af því fyrir landsjóð, en hina vegar gæti það orðið talsverður hagnaður fyrir landsjóð og hjeraðið, er hlut á að máli, ef fyrirtæki þetta kæmist á fót.

Þá spurði hæstv. ráðherra, hvað samningum liði milli leyfisbeiðenda og landsdrottins um lóðarrjettindi á þessum stöðvum. Þessir samningar eru ekki fullgjörðir enn þá, en jeg hefi hjer með höndum brjef, er síra Magnús í Vallanesi hefir skrifað biskupi, þar sem hann spyr hann um, hvort nokkur vandkvæði mundu vera á því, að fá leyfi til þess að leigja leyfisbeiðendum lóðarrjettindi, ef hann sjálfur sem landsdrottinn hafi ekki fult leyfi til þess.

Jeg veit ekki hverju biskup hefir svarað, en þetta brjef sýnir það, að sjera Magnús í Vallanesi er fús til samninga.

Viðvíkjandi fossinum get jeg svarað hæstv. ráðherra því, að annar helmingur hans — fossinn er tvískiftur — er þegar leigður Þórarni B. Guðmundsson; og hefir hann tjáð mjer, að hann hafi fengið loforð fyrir hinum helmingnum, sem tilheyrir annarri jörð.

Það er mikið rjett, að beiðni um einkaleyfi er ekki sama og að verkið verði framkvæmt. Það er vitanlega undir því komið, hvað mikið fjelagið gjörir sjer von um að bera úr býtum. En jeg verð að halda því fram, að rjett sje, að samþykkja frumv. með það fyrir augum, hve mikill hagur landssjóði gæti orðið af því, að verkið kæmist í framkvæmd. Enn fremur yrði hafnarbygging á þessum stað að afar miklu gagni fyrir Hjeraðið og framtíð þess. En höfnin yrði svo dýr, að bæði landinu og hjeraðinu mundi ofvaxið að sinni að leggja út í slíkt fyrirtæki. Aftur á móti er höfn á þessum stöðvum nauðsynlegt skilyrði fyrir því, að fjelagið geti starfað nokkuð.

Út af athugasemdum hæstv. ráðherra um sýnishorn það af sandinum, er rannsakað hefir verið, þá skal jeg geta þess, að jeg hefi ekki sannanir fyrir, að það sje ósvikið, en mjer kom ekki til hugar, að tortryggja mennina um það, sjerstaklega þar sem mjer var kunnugt um, að þessi enski maður ferðaðist um þessar slóðir í fyrra, og gat þess þá þegar, að talsvert járn væri í sandinum. Enn fremur virðist ágreiningur leyfisbeiðanda við nefndina benda á það, að hann hafi von um, að verkið verði framkvæmt, þar sem hann gat þess beinlínis, að hann bæri kvíðboga fyrir því, að hið háa útflutningsgjald, sem nefndin stingur upp á; mundi fæla fjelagið frá því að taka til starfa.

Viðvíkjandi athugasemdum hæstv. ráðherra um fyrirkomulagið á útflutningsgjaldinu, skal jeg geta þess, að það er velkomið, að nefndin treysti ákvæðin í þá átt, er hann stingur upp á. En jeg á bágt með að skilja, að eftirlitið með útflutningnum geti orðið erfitt, því að það kæmist þegar upp, ef aðrir færu að flytja vöruna út en fjelagið sjálft, þar sem engir aðrir en það framleiða þessa vöru hjer á landi.

Að öðru leyti get jeg verið hæstv. ráðherra þakklátur fyrir athugasemdir hans, og fyrir það, hve hann vill láta frumv. vera bygt á traustum grundvelli.