26.08.1915
Neðri deild: 43. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 1042 í B-deild Alþingistíðinda. (1862)

93. mál, hagnýting járnsands

Guðmundur Hannesson:

Jeg hefi heyrt það á mörgum, að þeir litu svo á, sem þetta járnsandsmál sje endileysa ein og lítil ástæða til þess að sinna því, en eftir því, sem jeg fæ frekast sjeð, eru nokkrar horfur á því, að fyrirtækið sje framkvæmanlegt. Í sýnhorni því, sem sýnt hefir verið hjer af sandinum, er áreiðanlega nokkuð af járni, og lítil hætta á, að sýnishornið sje falsað, því járnefnið er svo smágjört duft, að það eitt mundi erfitt að falsa. En þótt lítið sje af járni í sandinum, þá er ekki örvænt um, að járn megi vinna úr honum með hagnaði. Því er þannig varið, að það er tiltölulega auðvelt að skilja járnefnið frá járnsnauðari sandinum með segulmagni. Sandi má lyfta úr sjávarbotni á ströndinni á mjög ódýran hátt með sanddæluskipum og hreinsa járn úr feiknum öllum af sandi annaðhvort á sjó eða landi. Falla þá járnagnirnar í sjerstakt hólf, en járnsnauða sandinum er fleygt. Hugmyndin er að minsta kosti skiljanleg, og má vel vera, að með miklu fjármagni megi hafa mikinn arð af slíkri járnvinslu.

Hitt er auðsjeð, að yrði úr þessum framkvæmdum, þá væri þetta eitt af okkar stórmálum, er gæti orðið til mikils hagnaðar fyrir landið alt og einstök hjeruð þess. Landssjóði bættust drjúgum tekjur. Hjeraðið fengi góða höfn á stað, sem engin líkindi eru til, að annars yrði hreyft við.

Jeg gjöri ekki mikið úr þeim mótbárum, er komið hafa fram gegn brtt. nefndarinnar. Eftirlitið getur ekki orðið vandasamt, þar sem ekki verður nema þessi eini maður, eða fjelag, sem flytur þessa vöru úr landinu. Það verður því erfitt að fara kringum lögin. Kæmist þetta fyrirtæki á fót við Hjeraðsflóa og borgaði sig þar, væri það ekki ólíklegt að svo gæti víðar verið við strendur landsins, þar sem líkt hagar til, eins og t. d. á Eyrarbakka eða Stokkseyri, og hvar sem slík járnvinsla væri rekin, hlyti að rísa upp góð höfn. Jeg treysti ekki mikið á þetta, en virðist þó hins vegar, að úr því að áhættan er engin, og ekki örvænt um talsverðan hag, þá sje heimskulegt að sinna því ekki.