26.08.1915
Neðri deild: 43. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 1043 í B-deild Alþingistíðinda. (1863)

93. mál, hagnýting járnsands

Björn Kristjánsson:

Jeg er sömu skoðunar og hæstv. ráðherra, að allrar varúðar þurfi að gæta, þegar um það er að ræða, að veita slík einkaleyfi, sem hjer er farið fram á. Það er svo varhugavert, að jeg álít það tæplega meðfæri þingnefnda, að afgreiða slík mál, með þeim litlu þekkingartækjum, er þær hafa. Það sjest líka á brtt. nefndarinnar, að hana hefir skort þekkingu til að búa svo um hnútana, sem þurft hefði. Yfirleitt hefir mjer virst þingið á seinni tímum liggja of flatt fyrir svona beiðnum. Vitanlega geta þær átt sjer eðlilegan rjett, en oft eru þær einungis svik, gjörð í því skyni að fleka ókunnuga menn til þess að leggja fram fje. Ef slík einkaleyfi lenda, annað hvort upphaflega eða með framsali, í höndum misendismanna, þá er það lítt skemtilegt, að láta þá geta flaggað með því, að Alþingi hafi samið svona lög. Þess vegna má ekki veita svona leyfi, nema vissa sje fyrir fram fengin fyrir því, að fyrirtækið sje heilbrigt og nægilegt fje fyrir höndum, til þess að reka það með.

Þetta frumvarp er svo úr garði gjört, að það gefur einhverjum, sem enginn veit hver er, einkaleyfi, til þess að vinna járn úr sandi. Einkaleyfið er að nafninu til bundið við Hjeraðsflóa einan, en leyfishafar hafa forgangsrjett fyrir öðrum til hins sama í kringum alt landið. Þetta er í raun og veru hið sama og leyfishafendur hafi einkarjett kring um alt land. Því að heyri þeir, að aðrir hugsi til að fara að reka þetta fyrirtæki, þá er þeim innan handað að bjóða hærra, og þá er skylt að veita þeim leyfið. Og jeg tel það mjög vafasamt, að Íslendingar eigi að útiloka alla aðra frá samkepni í þessu efni, sjerstaklega þegar enginn veit um það enn þá, til hvers eigi að nota þetta einkaleyfi.

Þá virðist mjer brtt, nefndarinnar um útflutningsgjaldið af hverri smálest allónákvæmt. Það má skilja á margan hátt. Það má skilja það á þann hátt, að reikna skuli af hverri smálest, þegar búið er að draga járnagnirnar úr með segulstáli, þegar sandurinn er blautur. En líka má ætla, að gjaldið sje miðað við járnsandinn þurran og heitan, en í því ástandi næst miklu meira járn úr sandinum.

Þetta þarf að orða nákvæmlega. Mjer hefir verið sagt, að fjelagið ætli að þurka sandinn, en auðvitað er ekki á því byggjandi, þótt það sje sagt.

Enn fremur er gjaldið miðað við »unnið járn«. Hvað er það? Er það unnið járn, þegar segullinn er búinn að draga það úr sandinum, eða útheimtist það til þess, að hægt sje að tala um »unnið járn«, að það sje brætt í kubba, »pigiron«, sem kallað er, eða er átt við hreint járn í stöngum eða plötum? Það verður að ákveða nánara.

Jeg get ekki lagt mikið upp úr gróða þeim, er landssjóður á að hafa af þessu. Jeg hygg, að erfitt verði að hafa eftirlit með útflutningnum. Og ákvæði frv. eru heldur ekki glögg. Það getur verið efamál, hvort fjelagið geti ekki flutt alt sitt járn tolllaust út, með því að fá sjer »strámann«, er kaupir afurðir þess hjer á landi pro forma. Það er vafasamt, hvort ákvæði frumvarpsins um útflutningsgjald ná til þess tilfellis.

Það hefir verið gjört ráð fyrir stórhöfnum, sem kosta mundu svo miljónum króna skiftir. Jeg tel það víst, að þessar hafnir mundu kosta margar miljónir króna. Þess vegna tel jeg það víst, að fjelagið eða starfrækjendurnir mundu nota fossaaflið öðruvísi en svo, að þeir ynnu á landi. Þeir mundu spara sjer að gjöra höfn fyrir margar miljónir króna, og leggja heldur rafmagnsþræðina út á sjó og vinna alt þar. En ef svo færi, hvernig yrði þá eftirlitið fyrir hönd landssjóðs?

Yfirleitt verð jeg að telja málið svo illa undirbúið, að ótækt sje, að frumv. verði að lögum á þessu þingi, heldur beri að vísa því til stjórnarinnar, til þess að hún geti aflað sjer upplýsinga um það. Það er engin von til þess, að einföld þingnefnd geti unnið að málum, sem til þurfa sjerstakar rannsóknir og tekniska þekkingu. Þetta mál er alt annara eðlis en saltvinslumálið á síðasta þingi; þar var öllum skiljanlegt, hvað um var að ræða. En þetta frumvarp er í því formi, og brtt. Sömuleiðis, að ómögulegt er að greiða þeim atkvæði, eins og er. Mjer þætti því liggja beinast við, að málinu væri vísað til stjórnarinnar, eftir að þingið hefir haft það til meðferðar og rætt það, sjerstaklega, þegar þess er gætt, að oss er ókunnugt um það, hvert fjármagn stendur hjer að baki.