31.08.1915
Neðri deild: 47. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 1050 í B-deild Alþingistíðinda. (1867)

93. mál, hagnýting járnsands

Björn Kristjánsson:

Það er með samþykki háttv. framsm. (J. J.), að jeg hefi beðið um orðið fyrst, til þess að skýra brtt. mínar á þgskj. 603, sem aftur eru leiðrjettar á þgskj. 633. Það stendur nefnilega svo á, að inn í 2. lið 1. málsgr. á þgskj. 603 hefir slæðst meinleg villa, eins og háttv. þm. sjá, sem sje »landhelgislínuna« í staðinn fyrir »lægsta fjöruborð«.

Jeg legg þá fyrst og fremst til, að breytt sje fyrirsögn frumv., slept heitinu »volcanic sand«, með því að allur sjávarsandur hjer við land er »vulkanskur«, sem kallað er, og óþarfi því að taka þetta fram í fyrirsögninni, en sett í staðinn: sjávarsand í Hjeraðsflóa.

Þá er brtt. við 1. gr. um það, að stjórnin hafi ekki heimild til að veita þetta einkaleyfi, fyrr en hún veit fyrir víst, að fyrirtækið komist á stofn á fulltryggilegan hátt, bæði vegna fjár og annars. Við vitum, að svo mörg fjelög hafa sótt um slíkt einkaleyfi og jafnvel fengið þau, án þess að þau hafi nokkurn tíma komið þeim á fót. Hafa þá leyfin verið höfð til að braska með og gengið frá einum brallara til annars, og er það verr farið en heima setið. Jeg álit, að þingið eigi ekki. að veita neitt einkaleyfi, eins og privatmenn, upp á guð og lukkuna, og til þess að fyrirbyggja það, kom jeg með þessa brtt. mína.

Í þessu verður að vera hreint borð, og jeg álít að þingið hafi gjört skakt í þessu efni 1913, þótt jeg greiddi þá atkvæði með einkaleyfi, og á jeg þar við einkaleyfið til saltvinslu. Það hefðu átt að vera heimildarlög fyrir stjórnina, sem því að eins hefðu komið til framkvæmda, að alt væri fulltrygt áður, en nú má búast við, að braskað verði með einkaleyfið fram og aftur, án þess að nokkuð komist í framkvæmd.

Það felst þá í till. minni, að einkaleyfið verði ekki veitt upp á nafn, og er það ekki af því, að jeg hafi neitt á móti mönnunum, sem um þetta sækja, eða vantreysti því að neinu leyti, að þeir sjeu eins hæfir til þessa og hver annar, heldur er það hitt, að fari svo, að þeim takist ekki að fá nægilegt fje til fyrirtækisins, þá er ekki rjett að útiloka aðra, þótt þessir hins vegar hljóti að hafa forgangsrjettinn.

Fresturinn, 5 ár, ætti að vera nægilega langur, til þess að útvega veltufjeð. Það eru ákveðin 5 ár í 1. gr. frv. og undir samkomulagi við stjórnina komið, hve lengi látið væri dragast að veita öðrum rjettinn, ef þessum mönnum tekst ekki að hrinda fyrirtækinu í framkvæmd. Jeg legg til að 2. gr. falli burt, því að bæði er nokkuð af efni hennar komið í 1. gr., og svo þarf ekki á ákvæðinu um framsal að halda, þegar leyfið verður ekki veitt, nema það sje tryggt, að nóg fje sje fengið.

Við 4. gr. er sú brtt., að því sje bætt inn, að stjórnarráðið hafi eftirlit með reikningsfærslu fjelagsins, til tryggingar því, að rjett eftirgjald sje greitt í landsjóð.

Í 5. gr. er tekið til gjald það, er greiða skal af framleiðslunni, og hefi jeg lagt það til, að þar standi 50 aurar af hverri smálest »af járnefni«, sem unnið er úr sandinum. Þetta verður sem sje ekki nánar skilgreint; það fer alt eftir því, hver aðferð er höfð til þess, að ná járninu úr sandinum, hvort járnefnið er hreinna eða óhreinna. Sje það gjört með segulstáli, þá loðir ætíð mikið af sandi við. Svo hefi jeg lagt til, að gjaldið yrði helmingi hærra, ef sandurinn er unninn úti á sjó, og gjöri jeg það af því, að jeg vil einmitt að hann sje unninn í landi, jeg vil styðja að innlendum iðnaði, og að fossaafl verði notað við framleiðsluna á landi, enda væri hægra eftirlitið við framleiðsluna á landi en úti á sjó. Og af sömu ástæðum hefi jeg einnig lagt það til, að gjaldið sje einnig 50 aurar af sandinum óunnum, því að þá borgar sig betur að vinna hann hjer á landi.

Í samræmi við þetta eru svo aðrar brtt. Jeg legg til, að einkaleyfið verði eigi veitt, nema að því er snertir járnvinslu við Hjeraðsflóa, og að því skuli fella burt úr 7. gr. orðin: »hvar sem er á landinu«. Við 8. gr., er sú brtt., að þegar einkaleyfistíminn er út runninn, þá geti stjórnin krafist kaups á fyrirtækinu með öllu saman, og sama rjett hafi landið einnig, ef leyfishafi brýtur samning sinn eða þess háttar.

Þá skal jeg að eins minnast lítið eitt á brtt. nefndarinnar. Jeg tel þær til mikilla bóta, frá því sem frv. var, þótt ekki felist það alt í þeim, sem mínar brtt. fara fram á, og gæti jeg því gjarnan greitt atkv. með þeim.

Það sem gjörir það, að jeg kem fram með þessar brtt., er ekki það, að mjer sje þetta tilfinningamál, heldur það, að jeg vil ekki að þingið hrapi að þessu, eins og það hrapaði að saltvinslumálinu sæla 1913, og jeg vil fyrirbyggja það, að þetta verði þinginu til vanvirðu. Það gæti leitt til þess, ef þetta leyfi er veitt, að rjettindin yrðu notuð til þess að leigja alla fossa í landinu, undir því yfirskyni, að vinna ætti sand með þeim, en að eins til þess að tryggja, að fossarnir yrðu ekki notaðir fyrsta mannsaldurinn.

Erlend fossafyrirtæki eru við því búin að leigja fyrir litla leigu fossana, sem eru í nálægum löndum, til þess að þeir sjeu eigi notaðir, og samkeppni geti ekki við þeirra fyrirtæki heima fyrir.

Þess vegna er svo áríðandi, að veita ekki slík leyfi, nema trygging sje fyrir, að fyrirtækin sjeu sett á fót.