29.07.1915
Neðri deild: 19. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 1061 í B-deild Alþingistíðinda. (1873)

52. mál, tún og matjurtagarðar

Flutningsm. (Þórarinn Benediktsson):

Eins og sjest á þgskj.100, þá er þetta frumv. runnið frá Búnaðarfjelagi Íslands og búnaðarþinginu, eða búnaðarþingum.

Málinu var fyrst hreyft á búnaðarþingi 1913, og varð af því sá árangur, að fram kom þingsályktanartillaga á Alþingi, þar sem skorað var á stjórnina, að koma fram með frumvarp um þetta efni fyrir þingið 1915. Af því varð þó ekki, að frumv. kæmi þessa leiðina, heldur kemur það, eins og jeg sagði, frá Búnaðarfjelaginu. Það hefir lýst sjer á búnaðarþingum, að vaknaður er áhugi á því, að fá ábyggilegar mælingar gjörðar á túnum og matjurtagörðum, eða með öðrum orðum á ræktuðu landi, til þess að ná þannig undirstöðu undir hagskýrslur um það efni. Og hjer liggja fyrir fylgiskjöl, sem sýna það, hvað gjört hefir verið í þessu máli, og hvernig menn hafa hugsað sjer, að koma því í framkvæmd. Það hefir þegar fengið dálítinn undirbúning og tilraunir verið gjörðar um það; hvað mælingarnar myndu kosta. Eins og tekið er fram í brjefi frá Búnaðarfjel. til stjórnarráðsins, sem hjer er prentað sem fylgiskjal, þá hafa tilraunirnar sýnt það, að mælingarnar munu kosta eitt dagsverk tveggja manna, mælingamanns og aðstoðarmanns hans, á hvert býli að meðaltali. Einnig er þar sýnt hvernig menn hafa hugsað sjer kostnaðinum skift niður á landssjóð og jarðeigendur, en inn á það skal jeg ekki ganga nánar að þessu sinni.

Jeg býst við að engum blandist hugur um það, að þetta er nauðsynjamál. Hjer er um það að ræða, að fá ábyggilega undirstöðu undir hagfræðisskýrslur, til þess að vjer getum sjeð það með nokkurn veginn fullri vissu, hvernig jarðrækt vor er á vegi stödd og hvernig henni miðar áfram. Við vitum að við höfum nú, að dæmi annara síðaðra þjóða, komið okkur upp hagstofu, sem ætlað er að búa til rjettar skýrslur um alla landshagi, er sýni ástand vort á ýmsum sviðum. Til þess að slíkar skýrslur geti orðið ábyggilegar, þarf grundvöllurinn undir þeim að vera góður og óyggjandi; annars eru þær oft verri en ekki neitt. En hins vegar vitum við það, sem nokkuð höfum fengist við að safna skýrslum um búnaðarmál, hve afar óábyggilegt framtal manna reynist einatt um þá hluti í ýmsum greinum, og þó jafnvel nærri allra helst að því er snertir jarðræktina.

Jeg skil því ekki, að ástæða sje til fyrir mig, að fjölyrða mikið um þetta. Að eins skal jeg taka það fram, áður en jeg setst niður, að búnaðarþingið 1915 hefir ekki lagt mjög mikla áherslu á það, að frumv. þetta verði endilega afgreitt frá þinginu sem lög nú, heldur að eins hitt, að það kæmist á dagskrá þings og þjóðar, svo að tækifæri yrði til þess, að kynnast öllu, bæði kostnaðinum og öðru, sem best, áður en lög voru samin.

Jeg óska þess svo, að frv. verði látið ganga til landbúnaðarnefndarinnar, til þess að hún geti unnið að því og greitt fyrir því, svo sem hún best sjer fært.