30.07.1915
Efri deild: 19. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 240 í B-deild Alþingistíðinda. (188)

59. mál, vélstjóraskóli í Reykjavík

Framsögum. (Karl Finnbogason) :

Nefndin hefir einungis gjört örfáar brtt. við frv., og þær eru allar þess eðlis, að engin . ástæða er til að halda langa ræðu um þær. Breytingarnar, sem nefndin leggur til að gjörðar sjeu, eru allar orðabreytingar, nema ein, og vil jeg skýra hana nánar. Þessi breyting er d-liður 3. brtt. við 4. gr. frv.

Í þessum viðauka, sem hjer ræðir um, leggur nefndin til, að þeir, sem fengið hafa vjelstjóraleyfi áður en lög þessi öðlast gildi, fái að ganga undir próf, enda þótt þeir fullnægi ekki skilyrðum þeim, sem sett eru í 1. og 2. lið 4. greinar laga þessara, sem sje: þótt þeir hafi ekki stundað járnsmíði í 3 ár eftir 14 ára aldur, og ekki fengið vottorð um það. Þetta álítur nefndin sanngjarnt og nauðsynlegt til að eyða ekki að óþörfu tíma fyrir starfhæfum mönnum.

Nefndin álítur ekki rjett, að veita þessum mönnum skilyrðislaust jafnan rjett við þá, er fullnægt hafa hærri kröfum til að öðlast rjettinn, en telur hins vegar sjálfsagt, að gjöra þeim svo ljett sem auðið er að öðlast hann, án þess þó, að veikt sje tryggingin fyrir því, að þeir megi með hann fara.

Við höfum, tveir nefndarmenn, gjört brtt., sem prentaðar eru á þgskj. 126. Þær eru alveg sama eðlis og breytingartillaga okkar við stýrimannaskólalögin, er háttv. deild samþykti í gær. Og er jafn sjálfsagt að þær verði samþyktar sem hún.

Legg jeg því til, fyrir hönd nefndarinnar, og okkar tveggja, að allar þessar breytingartillögur verði samþyktar.