30.07.1915
Efri deild: 19. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 241 í B-deild Alþingistíðinda. (189)

59. mál, vélstjóraskóli í Reykjavík

Karl Einarsson :

Jeg á svolitla breytingartillögu á þgskj. 150, sem að mestu leyti mælir með sjer sjálf. Nefndin áleit heppilegt að þeim yfirvjelstjórum, sem undanþáguleyfi hefðu fengið, væri gjört hægara fyrir en öðrum að taka próf. En það hefir slæðst inn svolítill misskilningur af vangá, Jeg vil leyfa mjer að lesa upp d- liðinn í 3. breytingartillögu nefndarinnar við 4. gr.: „Sá, sem fengið hefir vjelstjóraskírteini eða undanþáguleyfi til að vera undirvjelstjóri, áður en lög þessi öðlast gildi, hefir rjett til að ganga undir vjelstjóraprófið, þótt hann fullnægi ekki skilyrðum þeim, er sett eru í 1. og 2. lið þessarar greinar“. Meining meiri hluta nefndarinnar var að setja „vjelstjóraskírteini eða undanþáguleyfi til að vera yfirvjelstjóri“, og var það í samræmi við 18. gr. frv. til laga um vjelgæslu.

Breytingartillagan gengur út á að leiðrjetta þetta. Jeg vil ekki ganga svo langt að meina þeim, sem fengið hafa undanþágu og ekki hafa lært járnsmiði, að taka próf við skólann.

Jeg vil benda á að brtt. við næsta mál á dagskrá, vjelgæslumálið, ganga út á að þeir, sem fengið hafa yfirvjelstjóraskírteini, samkvæmt eldri lögum, fái einnig yfirvjelstjóraskírteini samkvæmt þessum lögum. Það útilokar ekki, þótt þessi viðbót sje sett við 4. gr., að sumir þeirra kunni að óska eftir að taka prófið. Jeg vona að breytingartillaga mín verði samþykt.