11.08.1915
Neðri deild: 30. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 1079 í B-deild Alþingistíðinda. (1891)

91. mál, Þjóðskjalasafn Íslands

Guðmundur Eggerz:

Það er ekki af meinbægni við Landsskjalasafnið, að jeg get ekki greitt atkvæði með þessu frumv. Eins og við vitum, hefir verið skipuð milliþinganefnd, til þess að athuga launakjör embættismanna og opinberra starfsmanna landsins. Það eru fleiri en jeg, sem hafa þá skoðun, að ekki sje rjett að stofna ný embætti eða breyta launum embættismanna fyrr en álit þeirrar nefndar er fram komið. Jeg veit, að menn munu segja, að hjer sje ekki um mikla upphæð að ræða, einar 4000 kr. (Hannes Hafstein: Ekki svo mikið). Það er heldur ekki aðalatriðið. Jeg sje ekki, að nein sjerstök ástæða sje til, að taka frekar launakjör starfsmanna Landsskjalasafnsins til athugunar heldur en launakjör starfsmanna hinna safnanna, bæði Landsbókasafnsins og Þjóðmenjasafnsins. Þeir hafa líka kvartað um að þeim sje illa launað. En hvað sem því líður, það eitt að launanefndin situr á rökstólum, nægir til þess, að jeg get ekki greitt þessu frv. atkvæði til 2. umræðu. (Hannes Hafstein: Það er nóg, ef þm. gjörir það við 2. umr.). Jeg skil, að háttv. flutningsm. óski þess, að jeg gjöri það. En jeg er ekki vanur að greiða atkvæði ofan í mig. Úr því að háttv. flutnm. skaut þessu að mjer, þá vil jeg skjóta öðru að honum. Jeg skil ekki hvernig í því liggur, að háttv. flutningsm. skyldi ekki koma með þetta mál, þegar hann var í ráðherrasessi, úr því að hann álítur það svo bráðnauðsynlegt. (Hannes Hafstein: Þá var ekki sótt um þetta). Annars þykir mjer það undarlegt, að á þessu þingi, þegar allir eru að tala um hversu nauðsynlegt sje að halda spart á fje landssjóðs, skuli hafa komið fram tillögur um stofnun svo margra nýrra embætta, sem raun er á orðin. Fyrst bankastjóraembætti með 6000 kr. launlaunum, þá ráðherraembætti með 8000 kr. launum, þá docensembætti með 2800 kr. launum, síðan prófessorsembætti í hagnýtri sálarfræði með 3000 kr. launum og loka docentsembætti í sömu grein með 2800 kr. launum. En yfirleitt virðast mjer undirtektir deildarinnar undir þessi mál hafa verið á þá leið, að flutningsmenn þessa frumv. geti tæplega búist við því, að það sigli beggja skauta byr í gegnum deildina. Menn eru orðnir leiðir á slíkum frumvörpum. Jeg tel það óþarfa töf fyrir þingið, að setja þetta mál í nefnd. Rjettast að fella það frá 2. umræðu. En ef menn vilja endilega láta það ganga til 2. umr,, þá vil jeg leyfa mjer að stinga upp á, að það verði fengið 5 manna nefnd til athugunar.