11.08.1915
Neðri deild: 30. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 1080 í B-deild Alþingistíðinda. (1892)

91. mál, Þjóðskjalasafn Íslands

Bjarni Jónsson:

Jeg skal ekki lengja mikið umræðuna með almennum athugasemdum. En samvisku minnar vegna ætla jeg að lýsa því hjer yfir, að það er ekki rjett að leggja mínar syndir á herðar flokksbræðra minna. Þetta tek jeg fram, vegna þess, að blað eitt hjer í bæ hefir hvað eftir annað talið mig foringja Sjálfstæðismanna. Vitanlega er þetta gjört til þess að vinna stefnu flokksins mein, með því að nefna heimskasta manninn foringja hans. Þetta er gamalt bragð, sem ýmsir líta svo á, að geti verið hættulegt. Þess vegna vildi jeg gefa þessa yfirlýsingu, bæði vegna sjálfs mín og flokksbræðra minna. Jeg ætla mjer einn að bera ábyrgð á þessari skoðun minni, og menn mega ekki telja hana til synda flokksins. (Ráðherra: Telur háttv. þm. þetta þá vera synd?). Jeg tala stundum frá annarra sjónarmiði, eina og fleiri; t. d, hefi jeg oft heyrt það, þegar um frelsismál landsins hefir verið að ræða, að aumum háttv. þm. hefir hætt við að líta mest á þau frá dönsku sjónarmiði.

Viðvíkjandi þessari launahækkun, sem hjer er farið fram á, þá hefir háttv. meðflutningsmaður minn (H. H.) sýnt rækilega fram á ástæðurnar til þessa frv., og að það sje rangt að halla svo rjetti einnar stofnunar í samanburði við aðra, sem hjer hefir átt sjer stað. Þetta þarf jeg ekki að endurtaka. Tilgangur minn með því, að gjörast flutningsmaður að þessu frumv., var sá einn, að það væri rjett og sjálfsagt, og jeg veit að háttv. þm. trúa því, að pólitískt fylgi eða vinátta við meðflutningsmann minn hefir ekki ráðið þar um.

Háttv. 2. þm. S.-Múl. (G. E.) þótti það ægilegt, að flytja á þessu þingi frv. um aukna kenslukrafta við Háskólann, eða um það, að jafna ranglátan launamismun. En hvers vegna? Raunar heyrist alt af kveða hjer við »veraldarstríð og dýrtíð«, og að vísu er það satt, en dýrtíðin hvílir öll á þeim mönnum, sem ekki eru framleiðendur; hinir fá tvöfalt verð fyrir sínar afurðir. Þessir menn eiga eftir að sýna fram á það, að tekjur landssjóðs sjeu minni nú en endranær. Mjer er ekki kunnugt um það, því að lítilfjörlega upphæð í kolatolli og vitagjaldi get jeg ekki tekið til greina. Ástæður þessar hanga því alveg í lausu lofti. Jeg minnist þess, að hafa heyrt marga háttv. þm. halda því fram, að það væri ekki tími til að ráða málinu til lykta á þessu þingi og vilja vísa því til stjórnarinnar. Þetta þing virðist annars illa við komið að koma nokkrum málum frá. Það er líklega vegna stríðsins; menn hugsa svo mikið um varúðarráðstafanir, að menn geta ekki sett kraft á að koma þessum fáu málum, sem liggja fyrir þinginu, frá. Annars er þetta mál svo óflókið að jeg

vona, að það fái að ganga fram; að öðrum kosti neyðist jeg til þess að halda, að kjósendahræðsla ráði atkvæðum hv. þm., þar sem þetta er seinasta þing áður en gengið er til nýrra kosninga. En jeg get sagt það fyrir mitt leyti, að jeg þekki svo vel mína kjósendur, að jeg er ekki hræddur við það þeirra vegna, að greiða atkvæði með skynsamlegum fjárveitingum. (Guðm. Eggerz: T. d. eins og að stækka Klepp). Já, þeir munu hafa sannfærst um það af ræðum háttv. 2. þm. S.-Múl. (G. E.), að þar muni einu bóli of fátt. Jeg ætla ekki að láta neinn ótta ráða mínu atkvæði, og jeg ætla að gjörast svo ósvífinn, að fylgja þessu máli, þó að stjórn, sem jeg er á móti, sje því meðmælt.

En sje þetta kveisan, kjósendahræðslan, sem að hv. þm. (G.E.) gengur, þá ætla jeg að lýsa því yfir, að jeg tel það alveg rangt, að fella slíka dóma yfir íslenskum kjósendum og gjöra þeim þær getsakir, að þeir kunni ekki að meta það, að varið sje fje úr landssjóði til andlegra eða verklegra framfara í landinu. Kjósendur vita það, að þessi sjóður er þeirra sameiginleg eign og honum á að verja til þess, að hjálpa bæði til, hagfræðilegs og andlega gróða, en milli þessa tvenns er ekki eins langt bil og margir halda.

Jeg vil svo enda ræðu mína með því að lýsa yfir því, að jeg tel þetta mál rjett og sjálfsagt og ástæðulaust að fresta því, að þessir menn fái að njóta jafnrjettis við aðra. (Sigurður Eggerz: Því kemur háttv. þm. ekki með samskonar frumv. viðvíkjandi Forngripasafninu?). Jeg vildi lofa háttv. þm. V.-Sk. (S. E.) að sýna hversu mikill mentavinur hann væri og lofa honum að koma með það frumv. En skorist hann undan því, þá er jeg fús á að koma fram með það, þegar búið er að samþykkja þetta frumvarp.