11.08.1915
Neðri deild: 30. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 1083 í B-deild Alþingistíðinda. (1895)

91. mál, Þjóðskjalasafn Íslands

Guðmundur Eggerz:

Jeg ætla ekki að fara að svara hnútum hv. þm. Dal. (B. J.) til flokka þess, er hann telst til. En þar sem hann var að tala um pólitíska dauðastund okkar alþingismanna, þá skildist mjer svo, að hann teldi, að það væri af hræðslu við kjósendur, ef einhver væri á móti þessu frumvarpi. Jeg veit ekki betur en að hann hafi sjálfur verið á móti stofnun sumra embætta, og býst ekki við, að hann þykist hafa verið það af hræðslu við kjósendur. En auðvitað slær háttv. þm. (B. J.) þessu fram núna, vegna þess, að hann er þessu frv., sem hjer liggur fyrir, fylgjandi. Annara er það allóviðfeldið, að heyra þetta alt af kveða við, að menn sjeu að halda kjósandaræðu, ef þeir eru á móti stofnun einhvers embættis. Heldur háttv. þm. Dal. (B. J.), að menn geti ekki haft þá sannfæringu, að sum embætti sjeu óþörf? Jeg skal svo ekki fara fleirum orðum um þetta mál, en mun greiða atkvæði á móti frumv. Jeg neyðist til þess að halda það, að háttv. þm. sje alt af að tala um sálarfræði, til þess að koma því í þingtíðindin, að hann sje mentaður maður, en það þarf dálítið meira en orðin tóm, til þess að almenningur komist á þá skoðun. Yfirleitt efast jeg um að þessi skoðun komist inn hjá almenningi á háttv. þm., enda þótt hann riti og tali fyrir fólkið fram á síðustu dauðastund.