11.08.1915
Neðri deild: 30. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 1084 í B-deild Alþingistíðinda. (1896)

91. mál, Þjóðskjalasafn Íslands

Ráðherra:

Háttv. þm. V.-Sk. (S. E.) minntist á launakjör forngripavarðarins. Jeg skal kannast við það, að hann hefir lægri laun en ætlast er til með þessu frumv., að landsskjalavörður hafi. Auðvitað er það sjálfsagt, að þeir sjeu jafnhátt launaðir, ef þeir hafa jöfnum störfum að gegna. Enn fremur minntist sami háttv. þm. (S. E.) á Landsbókasafnið, en það átti ekki við í þessu sambandi, vegna þess, að landabókavörður hefir jafnhaf laun og ætlast er til að landskjalavörður hafi eftir þessu frumv. Um aðstoðarmennina er það að segja, að annar þeirra hefir 1800 kr., en hinn hefir á pappírnum að eins 1200kr., en nýtur jafnframt eftirlauna úr landasjóði. Þessi samanburður háttv. þm. V.-Sk. (S. E.) á því ekki við. Annað hvort eru orð hans töluð út í hött, eða stafa af athugaleysi eða hann veit ekki betur. Að hv. 2. þm. S.-Múl. (G. E.) sje móti öllum launahækkunum er skiljanlegt. Því er svo varið um takmarkaða menn, sem nóg hafa sjálfir, að þeir fá ekki skilið að aðra vanti fje. Hann er í góðu embætti, með 6–9000 kr. tekjum, og fær því ekki skilið nauðsyn annara. Jeg er ekki að væna háttv. þm. um illvilja, býst við að þetta stafi að eins af takmörkuðum andlegum hæfilegleikum. (Guðmundur Eggerz: De mortius nihil nisi bene). Það er alt gott, sem jeg er að segja; jeg er að bera blak af háttv. þm. S.-Múl. (G. E.), þar sem jeg kenni þessu afstöðu hans ekki »subjectivum« illvilja, heldur «objectivum« skilningsskorti.