11.08.1915
Neðri deild: 30. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 1085 í B-deild Alþingistíðinda. (1897)

91. mál, Þjóðskjalasafn Íslands

Sigurður Fggerz:

Jeg held fast við það, að laun forngripavarðar sjeu alt of lág í samanburði við það, sem hjer er farið fram á. Og mjer er kunnugt um það, að hann hefir alt af nóg að gjöra, og er mjög samviskusamur maður. Og jeg býst við því, að væri hann sömu skoðunar í stjórnmálum og þeir menn, sem njóta eiga góðs af þessu frumv., þá myndi hann fá lofræðu úr ráðherrastólnum hjer á þingi. Jeg neita því heldur ekki, að laun starfsmanna Landsbókasafnsins eru nokkuð lág, 1. aðstoðarmaður hefir 1500 kr. og annar aðstoðarmaður 1200 kr. Enn fremur vinnur þar við safnið hæfur maður, Árni Pálsson, fyrir einar 1000 kr, á ári. Það álít jeg smánarkjör fyrir mann með hans hæfileikum. Og hefðu tilfinningarnar fyrir þeim, sem eiga við örðug kjör að búa, ráðið eins miklu hjá hæstv. ráðherra og hann ljet í veðri vaka, þá hefði hann átt að byrja á því að bæta kjör þessa manns. En jeg býst við, að annað hafi ráðið meira um hjá honum, og þess vegna hafi hann viljað byrja á hinum konungkjörna þingmanni, er hann treystir sjerstaklega vel.

Ummæli hæstv. ráðherra um háttv. 2. þm. S.-Múl. (G. E.) sýndu hve ráðherrahæfileikar hæstv. ráðherra eru takmarkaðir, eins og jeg hefi fyrr tekið fram. Það er hart að heyra, hvað eftir annað úr ráðherrastólnum orð, sem eru þannig vaxin, að það er ekki sæmilegt að hlýða á þau. Og það er leitt, hvað seint það sækist, að kenna hæstv. ráðherra að haga sjer eins og siðuðum manni sæmir.