11.08.1915
Neðri deild: 30. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 1087 í B-deild Alþingistíðinda. (1900)

91. mál, Þjóðskjalasafn Íslands

Flutnm. (Hannes Hafstein):

Út af orðum háttv. þm. Dal. (B. J.) skal jeg geta þess, að jeg lít svo á, að það eigi ekki við að taka breyting á launum forngripavarðar upp í þetta frv. Þetta frv. er sjerstætt, svo að slíkt ákvæði gæti ekki bætst við það, án þess að umsteypa öllu frumvarpinu.

Jeg er samdóma hæstv. ráðherra um það, að engin ástæða sje til þess að skipa nefnd í þetta mál. Það hlýtur öllum að vera ljóst, hvort þeir vilji, að þau störf, sem hjer er um að ræða, sje þannig launuð, að nauðsyn knýi starfamenn til þess, að verja starfskröftum sínum til annara starfa, til þess að þeir geti lifað, eða fái þau laun fyrir störfin við safnið, að þeir geti nokkurn veginn lifað af þeim. Spurningin er ekki önnur.

Jeg er alveg ósamþykkur því, að rjett sje að bíða eftir tillögum launanefndar í þessu efni, í fyrsta lagi vegna þess, að þetta atriði snertir ekki það verkefni, sem henni er falið, og enn fremur, þótt svo væri, þá álít jeg ekki rjett að bíða með það, að gjöra jafn sjálfsagðar rjéttlætisbætur meðan sú nefnd er að hugsa sig um, sem guð má vita hve lengi verður.