26.08.1915
Neðri deild: 43. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 1089 í B-deild Alþingistíðinda. (1902)

91. mál, Þjóðskjalasafn Íslands

Framsm. meiri hl. (Matthías Ólafsson):

Eins og sjest á nefndarálitinu, hefir nefndin ekki getað orðið á einu máli um þetta frv. Meiri hl. vill að landsskjalavörður fái nú þegar 3 þús. kr. í föst laun, en minni hlutinn hefir ekki viljað fallast á það, og hefir sjerstaklega fært til þess þá ástæðu, að nú sitji á rökstólum milliþinganefnd, sem eigi að gjöra till, um launakjör opinberra starfsmanna og muni þá laun þessa manns einnig koma til greina. Minni hlutinn er á sama máli og við um það, að starf manns þess, sem hjer er um að ræða hafi verið mikilsvert fyrir þjóðina og að nauðsyn sje á því, að hæfur maður setjist í stöðuna þegar hans missir við. En einmitt þess vegna er það nauðsynlegt, að einhver góður maður geti og vilji nu þegar fara að búa sig undir það og undirbúningurinn þarf að vera talsverður. Jeg veit ekki til þess að nú sje til neinn hjer á landi, sem fær væri um að gegna starfinu eins vel og þessi maður og þess þyrfti þó við.

Í nál. er því lýst, hvert starf þessa manns er og hefir verið og það er ekki lítið fyrir alveg óviðunanlega litla þóknun. Hver maður veit það að þótt maðurinn væri alveg skuldlaus í fyrstu, þá gæti hann þó ekki lifað á því einu saman sem fyrir það er borgað, og mjög litlar aukatekjur fylgja því, en hins vegar tekur það upp nær því allan tíma mannsins. Auk þess er núverandi landsskjalavörður orðinn roskinn, og það er ósanngjarnt, að láta hann bíða svo og svo lengi eftir niðurstöðu launanefndar, til þess að fá sanngjarna kauphækkun. Það er jafnvel efasamt, að starf þetta komi nokkuð til greina í launanefndinni. Í nál. minni hlutans er því haldið fram, vegna þess, að hann sje starfsmaður landsins, en það er ekki víst, að nefndin fáist við nema svo kölluð föst embætti, eftirlaunsembætti, og þá kemur þessi sýslan þar ekki til álita. Og enda þótt hún kæmi það, þá situr sú nefnd að starfi sínu alt næsta ár og ef til vill lengur, og svo er ekki víst, að endilega verði undið strax að því, að koma í framkvæmd tillögum hennar. Þrátt fyrir alt starf launa-nefndarinnar gæti það dregist um tugi ára, að þessum manni yrði maklegur sómi sýndur, og meiri hlutinn vill ekki láta hann svelta á meðan, Þegar einhver maður hefir int þjóðþarft verk: af hendi, þá er það skoðun mín, að hann eigi skilið laun fyrir það, og þegar sagt er, að hann sje ómissandi, þá er það hróplegt vanþakklæti, að sjá það ekki við hann, að hann hefir slitið sjer út til þess.

Jeg get því ekki annað en lagt það eindregið til, að háttv: deild fallist á tillögur meiri hlutans, og þarf ekki að segja öllu meira að sinni, Í nefndaráliti meiri hlutana, er skýrt frá miklu af starfi mannsins, og það er mikið, svo að jeg býst við, að allir verði að fallast á það með báðum hlutum nefndarinnar, að hann sje góðs verður. Ágreiningurinn er að eins um það, hvort nú eigi að gjöra starfann að fastri stöðu eða ekki, og rök meiri hlutans fyrir því eru þau, að gefa nýjum manni hvöt til þess, að fara nú þegar að búa sig undir að taka við verkinu. Það vill minni hlutinn ekki, og er það skakt, og óhæfilegt að láta alt bíða þangað til þingið kann að fara að framkvæma væntanlegar tillögur launanefndar. Það er alveg óhætt að þetta nái samþykki þingsins nú þegar, og það vona jeg að verði.