26.08.1915
Neðri deild: 43. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 1091 í B-deild Alþingistíðinda. (1903)

91. mál, Þjóðskjalasafn Íslands

Framsögum. minni hl. (Þórarinn Benediktsson):

Jeg held að þetta mál græði ekkert á því, að menn fari að halda um það langar ræður, og það skal jeg ekki gjöra, því síður þar sem báðir nefndarhlutar eru að ýmsu á sama máli. Báðir líta sem sje svo á, að Þjóðskjalasafnið sje mjög merkilegt og dýrmætt safn og að áríðandi sje, að þar sje skipaður til safngæslu sem hæfastur maður, að vanda þurfi sem best val á slíkum manni. Enn fremur getur minni hluti nefndarinnar fallist á það, að núverandi landsskjalaverði sje það mest að þakka, hvern vöxt og viðgangsafn þetta hefir fengið á síðustu árum, og að hann eigi skilið að honum sje sýnd viðurkenning fyrir vel unnið starf við safnið.

En eins og stendur í nefndaráliti minni hlutans, þá leggur sá hluti nefndarinnar aðaláhersluna á það, að ekki sje nauðsynlegt að breyta þessari stöðu í fast embætti með 1200 kr., launahækkun á ári nú þegar á þessu þingi. Eins og kunnugt er, situr að störfum milliþinganefnd, sem hefir það verkefni að gjöra tillögur um launakjör allra embættismanna og annarra opinberra starfamanna.

Þar sem það var beinlínis tekið fram í þingsál.till., þegar nefndin var skipuð, að hún ætti jafnframt að athuga kjör allra starfsmanna landsins, þá hlýtur starf landsskjalavarðar einnig að verða tekið þar til greina, eins og alt annað, sem þar undir hverfur. Minni hlutinn gat því ekki sjeð, að það lægi svo mjög á að hrapa að því, að skapa þetta nýja embætti, meðfram af því, að fleiri hafa sams konar starfa við hin söfnin, og liggur ekki fyrir að breyta til um þá. Þess vegna er sjálfsagt að bíða og sjá hverjar tillögur milliþinganefndarinnar verða, áður en nokkru slíku er breytt.

Þá skal jeg minnast á eitt, sem hv. framsögum. meiri hlutans (M. O.) lagði mikla áherslu á, sem sje það, hve langt geti orðið þess að bíða; að tillögur þeirrar nefndar komist í framkvæmd. Jeg skal nú ekki fullyrða neitt um það, en eftir venjunni er ekki ástæða til, að búast við öðru en að þær komi í ljós þegar á næsta þingi, og það er ekki svo langur tími þangað til, að ekki megi vel bíða eftir því, að sjá hvað nefndin leggur til. Ef tillögur nefndarinnar þykja ekki þannig lagaðar, að hægt sje að taka þær til greina, þá er fyrst kominn tími til að finna annað betra.

Það er drepið á það í nefndaráliti minni hlutans, að til sje önnur leið til þess að sýna mönnum slíka viðurkenningu, sem hjer er um að ræða, og það er með því, að veita þeim persónulega launaviðbót í fjárlögum. Sú leið hefir oft verið farin. Jeg skal nú ekki segja, hvort minni hlutinn myndi fallast á það í þessu tilfelli, en jeg fyrir mitt leyti myndi ekki hafa á móti hóflegri fjárveitingu í því skyni.

Jeg skal svo ekki fjölyrða þetta frekar, heldur leyfa mjer að lesa upp svo hljóðandi rökstudda dagskrá, sem jeg mun afhenda hæstv. forseta með ósk um að hún verði borin undir atkvæði háttv. deildar að lokinni umr.:

Vegna þess, að milliþinganefnd situr að störfum, sem hefir það verkefni, að athuga og koma fram

með tillögur um launakjör embættismanna og annarra starfsmanna landssjóðs, sjer deildin ekki ástæðu til að taka ákvörðun um frumvarpið á þgskj. 217, meðan till, nefndarinnar eru ekki komnar fram. Tekur hún því fyrir næsta mál á dagskrá: .