26.08.1915
Neðri deild: 43. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 1093 í B-deild Alþingistíðinda. (1904)

91. mál, Þjóðskjalasafn Íslands

Framsögum. meiri hl. (Matth. Ólafsson):

Mjer þykir leitt að þurfa að tala oftar en einu sinni í jafn litlu og ljósu máli, en gjöri það þó, af því að háttv. framsögum. minni hl. (Þ. B.) tók ekki framar nokkurt tillit til þess í ræðu sinni, sem jeg hafði sagt, en hann hefði aldrei heyrt það.

Þó að tillögur milliþinganefndarinnar í launamálunum komi fram á næsta þingi, þá er þó engin vissa fengin fyrir því, að nokkrar af þeim nái fram að ganga á því þingi. Og þó að allir viti að það er sanngirniskrafa, að þessi maður, sem hjer er um að ræða, fái skárri laun, þá gæti það því, eins og jeg hefi marg tekið fram, dregist um áratugi, að hann fengi þau, og eins og jeg hefi áður tekið fram, þá er óforsvaranlegt að svelta hann þangað til.

Háttv. framsögum. minni hl. (Þ. B.) læst mundu vilja láta manninn fá persónulega launaviðbót, en háttv. minni hluti hefir engan lit sýnt á því í verki. Þetta eru bara tóm orð alt saman, og maðurinn lifir ekki á þeim. Ef þeir hefðu haft vilja á þessu, þá hefðu þeir átt að koma fram með tilllögu í þá átt, en meðan þeir gjöra það ekki, þá verð jeg að efast um, að þeim sje það svo mikil alvara, því að ef þingnefnd eða nefndarhluti ræður til þess, að hafa eitthvað öðruvísi en ætlað er, þá er að gjöra eitthvað til þess. Dagskráin, sem hjer var lesin, sje jeg ekki að sje annað en leið til þess, að gjöra ekkert í þessu máli, og þess hefði varla verið að vænta eftir orðum háttv. þm.

Jeg verð því fyrir hönd meiri hlutans að lýsa yfir því, að við munum greiða atkvæði á móti þessari dagskrártillögu, og það vona jeg að sem flestir háttv. þm. gjöri. Háttv. minni hl. hefir líka alveg gengið fram hjá einu þýðingarmiklu atriði, sem jeg nefndi, og meiri hlutinn byggir skoðun sína á, og það er, að einhver efnilegur maður, sem líklegur væri til þess, að taka við af núverandi skjalaverði, fengi að vita það, að hjer væri þó lífvænleg staða í vændum og tæki því þegar að búa sig undir hana.