05.08.1915
Neðri deild: 25. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 1104 í B-deild Alþingistíðinda. (1919)

73. mál, Siglufjarðarhöfn

Flutningsm. (Stefán Stefánsson):

Eins og háttv. deildarmenn, mun reka minni til, var samþykt hjer á síðasta þingi eignarnámaheimild fyrir hreppsnefnd Hvanneyrarhrepps á lóð og mannvirkjum undir hafnarbryggju á Siglufjarðareyri. Nú er þessu máli svo langt komin, að dýptarmæling hefir verið framkvæmd af Benedikt Jónassyni verkfræðingi og teikning og kostnaðaráætlun verið gjörð af landsverkfræðingi Krabbe. Þessi áætlun og teikning hefir legið hjer frammi, þingmönnum til athugunar, og hefi jeg leyft mjer að senda það hvorttveggja háttv. fjárlaganefnd. Siglfirðingum er það mikið áhugamál, að þetta fyrirtæki komist sem fyrst af stað. Eins og nú standa sakir, er öll strandlengja Siglufjarðareyrar fullskipuð húsum og bryggjum einstakramanna, svo að aðkomumenn verða aðeiga það algjörlega undir góðvild þeirra manna, hvort þeir geta afgreitt skip sín eða ekki. Þetta er því tilfinnanlegra, sem aðsókn aðkomandi sjómanna til Siglufjarðar eykst ár frá ári. Sjerstaklega eru það síldveiðamenn og vjelbátaútgjörðarmenn, sem sækja þangað á sumrum, bæði austan af Langanesi og alla leið vestan af Veatfjörðum. En þetta kemur af því, að Siglufjörður er betur settur, að því er veiðiskap snertir, en nokkur önnur höfn á Norðurlandi.

Í þessari áætlun, sem Krabbe verkfræðingur hefir gjört, er búist við að bryggjan muni kosta alt að 147 þús. kr. Við þetta er miðuð upphæð sú, sem nefnd er í frumv., að þurfi til verksins, sem sje alt að 150 þús. kr. Siglfirðingar óska að landssjóður leggi til 1/4 af þessari upphæð, og að fyrir hinu verði veitt ábyrgð. Er þetta í samræmi við það, sem átti sjer stað um hafnargjörðina í Vestmannaeyjum.

Til skýringar þessu máli höfum við flutningsmenn frumv. látið prenta brjef Siglfirðinga til okkar, sem fylgiskjal aftan við frumv. Af því er sjáanlegt, að þó að ekki sje gjört ráð fyrir nema hinu frekasta lágmarki, sem eiginlega er hægt að setja um tekjur hafnarinnar, þá nema þær eigi að síður 13636 kr., og hreinar tekjur landssjóðs að minsta kosti 12 þús. kr.

Það er því ekkert undarlegt við það, þótt leitað sje til þingsins með þetta máli, þar sem bæði er fordæmið til frá. Vestmannaeyjum, og svo þegar litið er til þess á hina hliðina, hver geisihagur hlýtur að verða af bryggjunni, bæði fyrir hafnarsjóð Siglfirðinga og landssjóð.

Jeg gat þess áðan, að strandlengjan á Siglufjarðareyri væri fullsett húsum og bryggjum einstakra manna, og því er tilætlunin, að þessi bryggja verði bygð ytst á Siglufjarðareyri, utar en allar aðrar bryggjur, og hlífi þannig ásamt með brimbrjótnum ekki einasta þeim bryggjum, sem nú eru þar, fyrir ísi og sjógangi, heldur verður brimbrjóturinn einnig vörður fyrir frekara landbroti, ásamt þeim varnargarði, sem nú verið að byggja.

Jeg skal þá ekki hafa fleiri orð um málið, enda býst jeg við, að þingmenn hafi greinilega kynt sjer brjef hafnarnefndarinnar til okkar flutningamanna, sem gjörir málið svo ljóst, sem frekast má. Jeg vona, að háttv. deild taki því vel, og að það verði, að umræðunni lokinni, annað tveggja sett í sjerstaka nefnd, eða því vísað til sjávarútvegsnefndarinnar, sem jeg tel eðlilegast, og vil því gjöra það að tillögu minni.