19.08.1915
Neðri deild: 37. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 1108 í B-deild Alþingistíðinda. (1922)

73. mál, Siglufjarðarhöfn

Stefán Stefánsson:

Jeg hefi ekki skrifað undir nefndarálitið af því, að jeg sje ánægður með þá niðurstöðu, sem nefndin hefir komist að. En þar sem jeg var einn míns liðs í nefndinni, þá sá jeg það með öllu tilgangalaust, að jeg færi að kljúfa hana, skrifa sjerstakt nefndarálit og lýsa þar skoðun minni á málinu. En þegar nefndin játar að þetta sje æskilegt fyrirtæki, þá sje jeg ekki, hvers vegna hún viðurkennir ekki, að hjer sje einnig líkt ástatt og í Vestmannaeyjum. Vel má það vera, að á Siglufirði stafi ekki eins mikil hætta af bryggjuleysinu, eins og hafnleysi í Vestmannaeyjum, en jeg hygg, að því verði ekki með rökum mótmælt, að landsjóður fái mjög miklar tekjur af þessu fyrirtæki, komist það á fót. En það er ekki einasta sá beini hagur, sem landsjóður mundi hafa af bryggjunni, heldur sú sjálfsagða nauðsyn, sem að þessu styður. Nú er svo ástatt á Siglufirði, að jafnvel strandferðaskipin og önnur skip með fastri áætlun geta ekki fengið sig afgreidd nema með miklum eftirgangsmunum, og stórum töfum, af því að þau eiga alveg undir högg að sækja, hvort þau geta fengið að nota bryggjurnar, sem allar eru einstakra manna eign, og margoft að alt pláss er þá upptekið, af þeirra eigin síldar- eða fiskiútveg.

Jeg á því erfitt með að skilja það, að nefndin skuli ekki að neinu leyti vilja styrkja þetta fyrirtæki með einhverju fjárframlagi úr landssjóði, þótt jeg að hinu leytinu, mundi hafa fallist á nokkru lægri fjárveitingu hlutfallslega en Vestmannaeyingum var veitt til sinnar hafnargjörðar.

En vegna þess, að afstaða til málsins var nú svona vaxin í nefndinni, þá sá jeg þann kost vænstan, að fylgjast með og sætta mig að eins við ábyrgðina að þessu sinni. En jeg vona, að síðari þing líti þannig á þetta fyrirtæki, komist það annara í framkvæmd, að það verði aðnjótandi einhverrar viðurkenningar, og í því trausti hefi jeg skrifað undir nefndarálitið.

Þar sem háttv. framsm. (M. Ó.) sagði, að ekki mætti bera þetta fyrirtæki saman við Vestmanneyjahöfn, því skal jeg kannast við það, að hættan sje ekki jafn mikil á Siglufirði og þar. En tekjurnar af þessari höfn verða óefað eins miklar eða meiri, vegna þess, að frá Siglufirði er enn meira flutt út af síld en af fiski, sem hátt útflutningsgjald hvílir á, en útflutningsgjald frá Vestmanneyjum verður sjálfsagt miklu minna, þar sem þar eru að eins stundaðar fiskveiðar, og tollurinn af útfluttum fiski er hverfandi í samanburði við síldartollinn. En þrátt fyrir það get jeg viðurkent, að Vestmannaeyjar eiga enn frekar kröfu til styrka, vegna þess, að þar er um höfn að ræða sem oft mundi leitað til, og það í neyð, þegar vart væri um aðra höfn að tala.

Háttv. framsögum. (M. Ó.) taldi það óheppilegt, að Norðmenn fiskuðu hjer við land, og virtist draga þá ályktun út úr því, að slíkt væri síður en svo til meðmæla styrkveitingunni. Þetta fæ jeg ekki skilið, ef menn annars treysta því, að strandgæslan sje í nokkru lagi, því Íslendingar fiska meginið af sinni síld í landhelgi, og fengju því sennilega ekki meiri afla, þótt útlendingar stunduðu hjer engar síldveiðar. Þar af leiðandi mega það því heita fundnir peningar, sem landsjóður fær í útflutningsgjald frá Norðmönnum. En, sem sagt, þá ætla jeg ekki að fjölyrða um þetta frekar. Jeg hefi sætt mig við tillögur nefndarinnar og vænti þess, að háttv. deild taki þeim vel.