03.09.1915
Neðri deild: 50. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 1113 í B-deild Alþingistíðinda. (1934)

3. mál, kosningar til Alþingis

Fram. meiri hl. (Jón Magnússon):

Frv. þetta er svo að segja hið sama, sem samþykt var hjer á þingi í fyrra. Nefndarálit meiri hlutans og minni hlutana sýna það, að nefndinni hefir ekki þótt ástæða til, að breyta frumvarpinu, nema í einu atriði. Og þetta eina atriði er í ákvæðunum um stundarsakir, kosningarnar að ári. Um það atriði get jeg látið mjer nægja að vísa til þess, sem sagt er í nefndaráliti meiri hlutana. Nefndin telur það mjög varhugavert að stilla svo til, að hinar hlutbundnu kosningar fari fram um miðjan vetur, í marsmánuði; þá er allra veðra er von, og getur þá vel farið svo í sumum hjeruðum, að alls ekki sje ferðafært kosningardaginn.

Um tillögu minni hlutans vil jeg taka þetta fram. Sú skoðun kom fram hjá ýmsum nefndarmönnum, að í rauninni mundi heppilegast að láta bæði hinar hlutbundnu og hinar óhlutbundnu kosningar fara fram sama dag, bæði vegna þess, að með því móti sparaðist kjósendum tími og fje, og svo væri hætt við, að landskjörið yrði verr sótt, er um svo fáa menn væri að ræða, er kjósa ætti, og að sumu leyti má ske nokkuð ókunna kjósendum. Meiri hluti nefndarinnar hefir samt ekki getað fallist á þessa skoðun. Hann telur það brjóta í bág við stjórnakipunarlögin frá 19. júní 1915. Hann telur og rjett að þeir, sem boði eru við landskosningarnar, eigi kost á að bjóða sig fram í kjördæmum, ef þeir ná ekki kosningu við landskjörið.

Jeg get ekki sjeð, að brtt. háttv. 1. þm. Árn. (S. S.) sjeu til bóta. Jeg hygg ekki, að það sje heppilegra að hafa kosninguna 12. júní en fyrst í júlí; sjerstaklega ekki fyrir sjómenn. Ef kosið væri 12. júní, þá væri framboð þingmannsefna má ske varla komin fram, þá er sjómenn kæmu inn um lok. En væri kosningin fyrst í júlí, þá væri kunnugt um alla frambjóðendur, þá er sjómenn væru inni um Jónsmessuleytið:

Meiri hluti nefndarinnar leggur þó ekki beint áherslu á það, að þessir kjördagar verði ákveðnir, sem hún hefir stungið upp á. Hún gæti vel felt sig við það, að landskosningarnar yrðu fluttar til loka júlímánaðar eða snemma í ágústmánuð, og kosningarnar í kjördæmum svo til 1. vetrardags. Líklega er 18. september ekki heppilega valinn dagur fyrir hinar óhlutbundnu kosningar. Mjer er sagt, að það sje rjettadagur í Þingeyjarsýslu. Þessu atriði þyrfti því að breyta.

Hitt leggur nefndin áherslu á, að kosningarnar verði ekki settar um hávetur og mönnum þar með má ske gjört ómögulegt að sækja kjörfund.