03.09.1915
Neðri deild: 50. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 1123 í B-deild Alþingistíðinda. (1942)

3. mál, kosningar til Alþingis

Bjarni Jónsson :

Orðalag ákvæðis stjórnarskrárinnar heimilar það ekki, að lands- og kjördæmakosningar fari fram samdægurs. Það verður ekki skilið svo, þar sem stjórnarskráin tiltekur hið lengsta millibil, sem megi vera,. ársfjórðung. Þetta verður ekki skilið öðruvísi en að löggjöfin ætlist til þess; að millibil sje, og það sje hjer um bil 2–3 mánuðir. Og allir þeir, er sátu það þing, er stjórnarskrána samþykti, vita þetta, og gjörðu það einmitt í þeim tilgangi, að þeir menn, er fallið hefðu við landskjör, gætu boðið sig fram í hjeruðum.

Jeg hefi aldrei sagt, að ókleift mundi að fá góða menn til framboðs, ef brtt. minni hlutans yrði samþykt. Jeg sagði, að enginn flokkur hefði óendanlega mörgum mönnum á að skipa, og enginn hefði ofmarga góða menn. En það gæti orðið vafasamt, að flokkarnir vildu tefla sínum bestu mönnum fram við landskjör, ef þeir gætu ekki fengið þá boðna fram í hjeruðum, ef illa færi við landskjörið. Og það er ekki að eins í þágu flokkanna, að bestu mennirnir komist á þing, heldur er það í þágu alls landsins.

Þá hafa. menn talað um sparnaðinn, sem yrði ef brtt. minni hlutans yrði samþykt. En hann yrði harla lítill, því að kosningarnar mundu ekki falla saman — nema þá einungis núna fyrst, — þar sem þingrof nær ekki til hinna landskjörnu.

Jeg hygg, að það sje óþarft að ræða þetta frekar. Þurfi að kalla saman þing, þá má göra það, þótt 6 þingmenn vanti; það er ályktunarfært fyrir því. Og jeg býst ekki við, að stjórnin myndi hika við það, ef landaþörf krefðist þess.

Um kosningadaginn 18. september skal jeg geta þess, að jeg álít rjettast, að samþykkja hann núna, en koma svo með brtt. við þriðju umr., og er þá tími til að metast um, hvorn daginn menn telja heppilegri.