03.09.1915
Neðri deild: 50. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 1124 í B-deild Alþingistíðinda. (1943)

3. mál, kosningar til Alþingis

Sigurður Sigurðsson:

Það er að eins stutt athugasemd.

Jeg skal ekki blanda mjer inn í það, hvort það komi í bága við ákvæðin um stundarsakir aftan við stjórnarskrána, að báðar kosningarnar, þær hlutbundnu og kjördæmakosningarnar, fari fram sama dag. Jeg heyri, að lögfræðingana greinir á um þetta, en það er nú raunar ekki nýtt, að þá greini á um lagaskýringar. En fyrst lögfræðingana greinir á., þá eru lítil líkindi til þess, að hinir verði á eitt sáttir. Jeg fyrir mitt leyti er samþykkur hv. 1. þm. Rvk. (S. B.) um, að þessi tillaga fari ekki í bág við áðurgreind ákvæði um stundarsakir.

En úr því að jeg stóð upp á annað borð, þá vil jeg benda nefndinni á það, að fleiri tímar geta verið hentugri til kosninga en 3. júlí og fyrri hluti septembermánaðar. Það mætti hugsa sjer landskjörið fara fram 10.–14. maí og kjördæmakosninguna 10. júlí. Jeg álít, að 10. júlí sje heppilegri kjördagur en 10. sept., sem áður hefir verið hafður, og ekki gefist vel. Setjum svo, að lengi hafi gengið óþurkar, en svo verði þurkur þann 10. sept. Jeg býst þá við, að margur mundi meta meir heyið sitt en kjördaginn og kosningarnar. Þess vegna er það, að ef farið verður að breyta til, mundi vera heppilegra að hafa landskjörið næsta ár í maí, 10.–14., og kjördæmakosninguna þá fyrri hluta júlímánaðar.