25.08.1915
Neðri deild: 42. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 1148 í B-deild Alþingistíðinda. (1967)

62. mál, stofun Brunabótafélags Íslands

Matthías Ólafsson:

Þegar jeg gjörðist meðflutningsmaður þessa mála, þá var það af því, að mjer var það mjög mikið áhugaefni.

Sú þjóð, sem ekki hefir brunabótaábyrgðir sínar í góðu lagi, getur varla talist menningarþjóð. Í landi, eins og þessu, þar sem peningaekla er, gengur sú heimska glæpi næst, að borga út úr landinu það, sem algjörlega er ónauðsynlegt og ekki þarf að borga út. Mjer finst, að það væri nær að nota þá peninga, sem við nú um mörg ár höfum látið ganga út úr landinu, til þess að ljetta undir með fátæklingunum, og síður finst mjer ástæða til að halda því áfram, að láta útlendinga okra á okkur, frekar en þarf. Það er ekki eingöngu um það að ræða í þessu máli, hvort einstaklingarnir græði eða ekki; mest er um það vert, að peningarnir lendi hjá Íslendingum en ekki öðrum, og því get jeg fallist á það, að iðgjöldin sjeu höfð nokkuð há, enda er ætíð hægur hjá, að lækka þau, og sömuleiðis get jeg fallist á aðrar breytingatillögur nefndarinnar.

Jeg skal taka það fram, að hjer er ekki um nein ný lög að ræða, heldur það, að blása lífi í þau lög, sem áður hafa verið til í landi voru. Það er auðskilið, af hverju þessi lög hafa ekki getað komist til framkvæmda. Útlendu fjelögin hafa vitað það vel, að ef þau vildu ekki taka að sjer endurtrygginguna, þá gátu lögin ekki komið til framkvæmda, og því hafa þau neitað allri samvinnu, alt fram á þennan dag.

Jeg hefi áður talað um brunahættuna. Það er ekki hægt að taka Reykjavík þar til samanburðar, því að hjer er gas leitt um allan bæinn, og eykur það auðvitað brunahættuna að miklum mun. En í því efni munu fáir bæir hjer á landi taka Reykjavík sjer til eftirbreytni, heldur taka rafmagn í staðinn, en af því stafar engin eldhætta. Auk þessa má geta þess, að húsin eru nú flest bygð úr steini, víðast hvar á landinu, svo að nú má heita að 4/5 þeirra húsa, sem bygð eru, sjeu bygð úr steini. Auk þess er húsunum nú betur fyrir komið í bæjunum en áður var, og við það minkar vitanlega brunahætta.

Háttv. þm. V.-Sk. (S. E.), sem er í minni hluta í nefndinni, sagðist ekki vita til þess, að brunatryggingarfjelög væru nokkursstaðar í heiminum rekin á ábyrgð landssjóðanna. Þetta getur vel verið; jeg hefi ekki kynt mjer það mál, en það er ekki því til fyrirstöðu, að við gjörum það.

Sami háttv. þm. hjelt því fram, að kostnaðurinn við reksturinn mundi gleypa 1/5 af tekjunum. Þetta er áreiðanlega ekki rjett. Í lögunum er hentugt fyrirkomulag um stjórn fjelaganna, og þar er það ákveðið, að öll iðgjöldin skuli borgast á einum og sama tíma. Jeg get hugsað mjer, að upphæðin yrði helmingi lægri en þingmaðurinn gjörði ráð fyrir.

Jeg verð að taka undir með háttv. framsögumanni meiri hlutana (M. K.), er bann sagði, að nú fengi þingið kost á að gjöra eitthvað til þarfa; en því að eins á þingið tilverurjett, að það breyti ástandinu, sem er, til hins betra, en láti ekki alt af alt standa í stað. Og jeg er ekki í neinum vafa um, að verði þessi lög samþykt, þá hrindum við þjóðinni langt áfram á menningarbrautinni.

Háttv. minni hluti villi vísa þessu máli til stjórnarinnar. Jeg sje ekki, að upp úr því hafist annað en það, að draga málið enn á ný á langinn. Á meðan rennur fjeð út úr landinu til stór óþurftar fyrir allan landslýð. Það er auðvitað, að ef lögin reynast ekki góð í fyrstu, þá er sjálfsagt að breyta þeim. Og jeg get ekki sjeð, að stjórnin eigi nokkurn kost á, að búa þetta mál betur í hendur þingsins en gjört hefir verið. Reynslan er besti kennarinn, og því eiga lögin að koma til framkvæmda sem fyrst. Jeg skal segja frá einu dæmi, sem jeg þekki, í sambandi við þetta mál.

Fyrir aldamótin síðustu, voru okkur, íbúunum á Dýrafirði fyrir vestan, veittar með ýmsu móti illar búsifjar af útlendu brunatryggingarfjelagi. Við tókum því það ráð, að stofna sjálfir brunabótafjelag með gagnkvæmri ábyrgð. Jeg skal auðvitað kannast við, þetta var stórkostlag áhætta. Samt hefir farið svo, að þegar jeg fór að vestan, áttum við 10,000 kr. í sjóði, því ekki hafði brunnið eins eyris virði.

Til mála hafði komið, að ef innlent brunabótafjelag kæmist á, á líkan hátt og það, er hjer ræðir um, þá skyldi fjelagið leggjast niður og vildu þá allmargir að sjóðurinn fjelli til hreppsins, og hefði það beint verið fundið fje, því hefði fjelagið eigi verið stofnað, þá hefði enginn eyrir af þessum sjóði verið hjer á landi.

Jeg er sannfærður um að það, að stofna innlent brunabótafjelag, verður oss til ómetanlegrar blessunar. Eftirlitið verður miklu betra með innlendu fjelagi og menn brenna síður viljandi. Því minna sem við tölum og því meira sem við störfum, því betra. Hver dagur og hvert ár, sem líður, án þess að við stofnum innlent brunabótafjelag, er oss stór vanvirða og stór tjón.

Jeg vona, að háttv. framsögum. minni hlutans (S, E.) taki orð mín ekki þannig, að jeg álíti, að tillögur hans sjeu sprottnar af illvilja. Jeg veit það, að tillögur hans eru einungis sprotnar af varfærni, en þar get jeg ekki orðið honum samferða. Mjer finst að nógu miklu sje hlaðið á stjórnina, þó að þetta stórmál bætist ekki ofan á. Komi hún því öllu af, sem þingið hefir þegar falið henni að starfa, þá tel jeg hana hafa unnið mikið og gott verk.

Jeg skal svo ekki orðlengja þetta frekar. Jeg býst ekki við að tala aftur, enda hefi jeg ekki gefið tilefni til að ráðist verði á mig, svo hógværlega sem jeg hefi reynt að tala um málið.