25.08.1915
Neðri deild: 42. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 1172 í B-deild Alþingistíðinda. (1974)

62. mál, stofun Brunabótafélags Íslands

Björn Kristjánsson:

Því miður hefi jeg ekki vit á þessu máli sem skyldi, en jeg tel það vafasamt, að það Sje rjett, að landssjóður taki að sjer þessa ábyrgð, sem hjer er farið fram á, og því er mjer mjög illa við, ef á að fella burtu ákvæðið í gildandi lögum um það, að endurtryggja skuli í útlendum fjelögum. Í öðrum löndum er þessu víst venjulega hagað á alt annan hátt; þar eru hlutafjelög, sem taka að sjer brunatryggingar. Þessi hlutafjelög eru öll stofnuð með litlu fje, en stækka svo smátt og smátt, eftir því sem þeim veg fiskur um hrygg. Jeg veit ekki hvort það er rjett, en mjer hefir fundist jeg finna það á ummælum manna hjer í deildinni, að menn haldi, að það þurfi margar miljónir til þess, að stofna slíkt fjelag. Þetta er algjör misskilningur.

Fjelögin eru venjulega stofnuð á þann hátt, að svo og svo miklu hlutafje er lofað, en svo er ekki borgað inn nema 1/5 hluti af upphæðinni. Jeg gæti, máli mínu til sönnunar, nefnt mörg fjelög, sem stofnuð eru á þenna hátt, og eru þó nú orðin stórrík. Jeg er viss um það, að ef við förum eins að, þá getum við vel stofnað slíkt fjelag hjer á landi. Ef landssjóður tæki stóran hlut í fjelaginu, þá er jeg viss um, að margir menn mundu vekjast upp, sem einnig vildu taka hlut. Með þessu lagi fengjum við sjóð í landinu, peninga en ekki ábyrgðir. Samkvæmt reynslu annara þjóða er óhætt að fullyrða, að 20% af lofuðu hlutafje er nægilegt, til þess að tryggja það, að. fjelagið fari ekki um koll, og árstekjur fjelagsins mundu venjulegast nægja, til þess að borga alla bruna. Þetta er miklu rjettari leið en sú, sem frumvarpið bendir til að farin verði, og mjer finst að við ættum ekki nú að stofna fjelag með sameiginlegri ábyrgð, og því síður ættum við að fella burtu úr núgildandi lögum ákvæðið um endurtrygginguna. Í raun og veru hefir landssjóður ekkert handbært fje nú, til þess að taka að sjer slíka ábyrgð, sem þá honum er ætluð með þessu frumv. Mjer kemur, eins og jeg hefi áður sagt, málið þannig fyrir sjónir, að best verði að stofna stæðilegt innlent fjelag, og jeg er viss um, að það fjelag yrði gróðafyrirtæki.

Af þessu, sem jeg hefi nú sagt, geta menn sjeð það, að jeg mun greiða þeirri rökstuddu dagskrá, sem háttv. minni hl. ber fram, atkvæði mitt. Ábyrgðir, sem landssjóður gengur í, bæta ekki lánstraust landsins. Það er miklu betra fyrir landið, að borga út beinharða peninga, heldur en ganga í ábyrgðir. Annars skal jeg geta þess, að jeg hefi miklu fleiri tilhneigingu til þess, að styðja að innlendum »Assurance« fyrir íslensk skip en hús. Áhættan við að tryggja íslensku skipin er miklu minni en við að tryggja þau útlendu, og af því leiðir, að við verðum að borga brúsann fyrir útlendu klaufana, sem sigla hjer við land, án þess að þekkja nokkuð strendurnar.

Jeg hefi nú gjört grein fyrir, hvernig jeg mun greiða atkvæði. Jeg vil láta vísa málinu til stjórnarinnar; raunar treysti jeg henni ekki til þess, að íhuga málið svo í nokkru lagi sje, en jeg treysti því, að hún útvegi sjer þá hjálp, sem til þess þarf.