14.09.1915
Neðri deild: 60. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 1188 í B-deild Alþingistíðinda. (1985)

62. mál, stofun Brunabótafélags Íslands

Framsögum. meiri hl. (Magnús Kristjánsson) :

Eins og nefndarálitið ber með sjer hefir háttv. Ed. tekið vel og viturlega í þetta mál. Hún er í aðalatriðunum samþykk þessari hv. deild, og lætur þess getið, að hjer sje um þýðingarmikið nauðsynjamál að ræða, sem brýn þörf sje á að nái fram að ganga.

Háttv. Ed. hefir þó gjört tvær breytingar á frumvarpinu. Hún gengur feti framar í að ljetta undir með almenningi með að tryggja lausafje í fjelaginu. Háttv. Nd. vildi, eins og kunnugt er, takmarka hve mikið lausafje mætti tryggja í fjelaginu, en Ed. hefir álitið fulllangt gengið í því efni, og meiri hl, nefndarinnar hjer er henni sammála um það. Af þessu getur engin veruleg hætta stafað fyrir fjelagið, að minsta kosti ekki frá sjónarmiði þeirra manna, sem hafa trú á fyrirtækinu.

Breytingar þær, sem orðið hafa á frv., eru aðallega þær, að í stað þess, sem háttv. Nd, samþykti, að samanlögð vátryggingarupphæð lausafjár, sem trygð væri í fjelaginu, mætti aldrei nema meira en 1/5 hluta af samanlagðri vátryggingarupphæð húsa, þá hefir Ed. sett 1/3 hluta. Önnur breytingin er um einstakar vátryggingarupphæðir lausafjár. Eftir frumv., eina og það fór frá háttv. efri deild, mátti engin ein vátryggingarupphæð lausafjár nema meira en 2000 kr., en Ed. breytti þessari upphæði í 6000 kr. Það er því síst hægt að segja, að frumv. eje óaðgengilegra nú. Jeg tel báðar þessar breytingar til bóta.

Áður en jeg setst niður, vil jeg taka það fram, að menn geta ekki búist við því, að mál þetta komist bráðlega til framkvæmda. Stjórnin þarf mikinn tíma til að koma öllu í kring, sem gjöra þarf, áður en fjelagið tekur til starfa, Hún þarf að gjöra ítarlegar tilraunir til að fá samninga við önnur fjelög um endurtryggingu. Þó að ekki takist að ná samningum við nokkurt af þeim fjelögum, sem hafa rekið þessa starfsemi hjer á landi til þessa, þá tel jeg ekki ólíklegt, að hægt sje að fá önnur fjelög til að endurtryggja, t. d. í Ameríku, þegar Sýnt er, að þetta fjelag tekur til starfa hvort sem er. Jeg vona að hv. stjórn taki þetta atriði til rækilegrar yfirvegunar.

Annað atriði, sem jeg vildi taka fram, er það, að menn mega ekki gjöra ráð fyrir, að allar vátryggingarskyldar eignir gangi í fjelagið, undir eins og það tekur til starfa. Það verður að haga svo til, að þeir, sem hafa samið um vátryggingar hjá öðrum, gangi ekki inn í fjelagið fyrr en tryggingartími þeirra hjá hinum er útrunninn. Þessu verður að haga svo, til þess að menn þurfi ekki að greiða tvöfalt tryggingargjald. Þetta þarf háttv. stjórn jafnframt að hafa fyrir augum.

Jeg vona að frv. fái góðar undirtektir hjer í deildinni eins og fyrri. Raunar eru margir þingmenn fjarverandi í dag, en jeg vona, að það hafi ekki áhrif á úrslit málsins.