30.08.1915
Neðri deild: 46. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 1193 í B-deild Alþingistíðinda. (2001)

123. mál, sveitarstjórnarlög

Flutnm. (Stefán Stefánsson):

Jeg þakka háttv. deild, að leyft var að taka frumvarpið til umræðu. En ástæðan til þess, að jeg kem fram með þetta frumvarp, er sú, að á síðasta þingi var samþykt þingsályktunartillaga, og var stjórninni falið, að undirbúa frumvarp til laga, þar sem heimilað væri, að leggja sveitarútsvar á þá atvinnu útlendra skipa við verkun á síld, er fer fram hjer á höfnum inni eða í landhelgi, þeirrar er þau flytja síðan út á stærri skipum sínum, að loknum veiðitímanum. Að þessu hefir ekki verið unnið af stjórninni, og því sje jeg mig neyddan til, að koma fram með þetta litla frumvarp, sem á að stuðla að því, að koma meira jafnrjetti á meðal útlendra síldarútvegsmanna hjer við land en enn þá hefir átt sjer stað.

Frumvarp þetta hefi jeg flutt, eins og líka þingsályktunartillöguna ú síðasta þingi, eftir ósk Siglfirðinga, sem mjög hart hafa orðið úti nú um nokkur ár, einmitt af þessum atvinnurekstri útlendinga, aðallega Norðmanna. Nú í sumar hafa legið með allra flesta móti slíkra skipa á Siglufjarðarhöfn, sem taka á móti síldinni úr veiðiskipunum, verka hana þar að öllu leyti, flytja hana síðan utan, og greiða enga krónu til sveitarþarfa. Aftur eru aðrir útlendingar, sem hafa bygt bryggjur og stór geymsluhús á Siglufirði, og ýmislegt þar fleira til þarfa unnið, sem verða að greiða allhá sveitarútsvör, enda þótt þeir hafi færri skip og minni útveg. Þessir menn eru því sáróánægðir yfir því, að þessi aðskotadýr og keppinautar þeirra, bæði við veiðiskapinn og síldarkaupin, sem leggja margfalt minna í kostnað, skuli sleppa við öll sveitargjöld. Enda hafa þeir útlendu, búsettu síldveiðamenn á Siglufirði sent umkvartanir yfir þessu til stjórnarráðsins og spurst fyrir um, hvort ekki mætti leggja útsvar á þennan útlenda atvinnurekstur. En svar hafa þeir enn ekki fengið.

Því óska jeg nú þess, að frumvarpið nái fram að ganga, sjái háttv. deild ekki einhverja sjerstaka annmarka á því. Vil jeg því gjöra það að tillögu minni, að frumvarpinu sje vísað til fátækralaganefndarinnar að umræðu lokinni. Til hennar var vísað frumvarpi nýlega um sveitastjórnarmál, og álít jeg ekki illa til fallið, að þetta frumv. yrði sett sem sjerstakur viðauki við það frumvarp.

Skal jeg svo ekki hafa fleiri orð um þetta mál að sinni, en óska, að því sje vísað til þessarar nefndar. Og eins vildi jeg óska þess, að jeg fengi að eiga tal við þá nefnd, svo að jeg gæti skýrt nánar frá, hvernig máli þessu er háttað.