10.09.1915
Neðri deild: 56. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 1196 í B-deild Alþingistíðinda. (2008)

150. mál, bráðabirgðaverðhækkunartollur

Flutningsm. (Pjetur Jónsson):

Þegar annað frumvarp um útflutningsgjald af íslenskum afurðum var felt frá nefnd hjer í deildinni, þá vissi jeg til, að margir, sem voru á móti því frumv., voru óánægðir ef ekkert yrði gjört í málinu. En við umræðurnar um það frumvarp, skaut jeg þeirri hugsun fram, að rjettara hefði verið, að útflutnings- gjaldið væri miðað við verðhækkun þá á vörunum, sem orðið hefir fyrir áhrif ófriðarins.

Svo, eftir þennan fund, er frumv. var felt á, tók hæstv. ráðherra sig til, og bjó til uppkast að frumvarpi til verðhækkunartolls. Niðurstaðan er sú, að jeg og fleiri samflokksmenn mínir komum okkur saman við hæstv. ráðherra, að bræða upp úr uppkastinu frv., og það birtist hjer.

Við, sem gengum í þetta mál, vorum af báðum flokkum framleiðenda, bæði landbúnaðarafurða og sjávarafurða. Við vildum fyrir hönd framleiðenda sýna það, að þeir væru ekki ófúsir á, að láta landssjóði í tje eitthvað af þeim sjerstaka gróða, sem þetta óvenjulega árferði hefir skapað. Og við vildum grípa gæsina meðan hún gefst, því vonandi kemur svona lagaður gróði aldrei framar, og naumast verður skattur lagður á hann síðar, þegar búið er að brúka hann mjög ýmislega. Þetta komum við okkur saman um, en það var ekki eins auðvelt að koma sjer saman um tilhögun gjaldsins. Til þess vantaði ýmsar nauðsynlegar skýrslur, t. d. um vörumagn og vöruverð fyrr og nú o. fl.

Fyrst var að koma sjer saman um hið gjaldfrjálsa verð. Þá reis sú spurning upp fyrir okkur, hvort taka skyldi fleiri ára meðalverð á undan stríðinu og leggja það til grundvallar, eða verðlag varanna rjett á undan stríðinu, eða þá lítið eitt hærra, af því að nú hvíldi aukinn framleiðslukostnaður á vörum þeim, sem tolla á. Þá var heldur ekki vandalaust að ákveða, hversu mikið skyldi leggja á hvern flokk, landbúnaðarafurðir annars vegar og sjávarafurðir hins vegar.

Samkomulagið um hlutföllin og verðið, varð sem næst því verði, er afurðirnar höfðu komist í á undan ófriðnum, eða ríflega það, til þess að tekið væri tillit til aukins framleiðslukostnaðar. Ekki var þetta þó svo mikið, að tekið sje tillit til alls aukins kostnaðar, heldur lítils háttar.

Tilganginum með frumvarpi þessu hefi jeg að nokkru leyti lýst. Það er auðvitað til að auka tekjur landssjóðs. Það, sem vakti fyrir okkur, var tvent.

Annað var það, að tilfinnanleg dýrtíð væri í landinu fyrir ýmsa menn, og hitt, athugavert ústand víðsvegar. Þetta getur að vísu ekki orðið leiðrjett af fjárveitingarvaldinu, nema að litlu leyti, en engum vafa er það bundið, að rjett sje, að gjöra eitthvað í þá átt, að landstjórnin og Velferðarnefndin geti haft eitthvert fje handa milli, ef í harðbakkana slær, því að ýmsar ráðatafanir, er stjórn og Velferðarnefndin yrðu þá að gjöra, hlytu að hafa allmikil útgjöld í för með sjer. En hina vegar er það, að aldrei hefir verið eins mikið verðmæti í landinu og nú er. Á þessu sumri hefir afarmikið verið flutt út af íslenskum afurðum, sem hafa verið í gífurlega háu verði, og svo mun og verða í haust og meðan þetta háa verð er á afurðunum. Það væri nú rangt af skattálöguvaldinu, að láta þetta óvenjulega verðmæti ganga sjer alveg úr greipum, þar sem sýnilegur skortur er á fje í landssjóði. Þetta þing verður t. d. að fresta hinu og þessu, svo sem ýmsum vegagjörðum og símalagningum; ýmsar brúargjörðir hafa þvælst fyrir þessu þingi, og ekki komist í fjárlög. En miklu af því, sem í fjárlögin er tekið, er stjórninni heimilað að fresta, ef fjárskortur verður, sem búist er við.

En allar þessar frestanir eru lán hjá framtíðinni, enda væri það hrópleg synd, að láta þessar brúargjörðir, símalagningar o. fl. dragast lengur en til næsta þings.

Loks má benda á það, að þótt svona mikið verðmæti sje nú í landinu á ýmsan hátt, og mikill gróði, þá eru líka margar skuggahliðarnar, og það er víst þetta, sem oft hefir verið vikið að hjer á þinginu, að nú eru hættulegir tímar, og þess vegna er ekki nema ráðlegt, að búa sig vel út gegn hættu, sem að höndum getur borið venju fremur. Jeg og meðflytjendur mínir viljum því grípa gæsina meðan hún gefst, svo að ekki beri alt undan. »Neyta meðan á nefinu stendur«. Því að það, sem græðist á verðhækkuninni, er ekki alt lagt á kistubotninn. Þessi óvænti gróði gjörir menn stórhuga og eyðslusama. Og ef alt væri látið afskiftalaust nú, yrði ef til vill of seint, að ná skatti af sumu af þessu fje.

Við höfum gjört tilraun til þess, að búa til áætlun um, hversu miklar tekjur myndu fást með þessu móti. Það er ekki svo auðvelt að gjöra nákvæma áætlun um þetta nú, því að mikið af vörunum er nú komið út úr landinu og því ekki hægt að leggja útflutningsgjald á þær. En haldi stríðið áfram, og sama verð verði næsta ár, þá er áætlað, miðað við þetta, er jeg nú sagði, að með sæmilegum útflutningi á kjöti, ull, síld og fiski verði tekjurnar um 370 þús. kr. (Guðm. Eggerz: Hversu mikið af þessu er af landbúnaðarafurðunum?). Tæp 120 þús. kr. Það er hlutfallslega meira en af sjávarafurðum, því að ullin fer meira fram úr venjulegu verði en aðrar vörur, og á saltkjöti höfum við meiri verðmun fram yfir venju en á fiski. Og tryggasti skatturinn nú er af kjöti og gærum.

Jeg ætla ekki nú að lýsa þessari áætlun nánar; hægra að gjöra það við 2. umræðu. Verðið má ekki falla mikið til þess að tekjurnar verði litlar. Ef fiskur fellur ofan í 100 kr., síld ofan í 25 kr. og saltkjöt ofan í 100 kr. tunnan, ull t. d. um 50 aura hvert kíló og gærur um 25 hvert kíló, þá yrðu tekjurnar litlar, eða innan við 200 þús. kr. Menn verða að gæta þess, að þessi skattur er verðhækkunarskattur og þar af leiðandi fellur hann alveg sjálfkrafa. Ef verðið fellur, þá hefir hann þann ókost, að tekjurnar minka, en hann hefir líka þann kost, að hann er ekki ranglátur.

Jeg ætla ekki að fara að svo stöddu lengra út í þessa áætlun, en það var eitt atriði enn, sem jeg vildi minnast á.

Við flutningsmenn frumv. höfum ekki viljað ákveða hvernig þessum tekjum skyldi ráðstafað. Við teljum rjett að þær renni beint í landssjóð. Í fám orðum, til að styrkja fjárhaginn. Við bjuggustum við því, að ef ákvæði væri sett í frumv. um það, hvernig verja skyldi tekjunum, þá spilti það eða tefði fyrir málinu og gjörði menn tvíbentari. Þetta er því hreint tollafrumvarp, ekki neitt annað.

Það hefir komið fram brtt. á þgskj. 909 frá okkur flutningsm. frumvarpsins. Jeg vil að eins biðja menn að taka það með í reikninginn, að þetta er ekki gjört til annars en að bæta úr vöntun í frv., er það fór til prentunar, og hins vegar, að okkur hafði verið bent á, að það væri ranglátt, að láta tollinn koma niður á mönnum, sem hefðu keypt vöruna áður en frumv. verður að lögum, en væru þó ekki búnir að borga þær nje senda út. Þetta vil jeg biðja menn að athuga, og skoða þetta sem það hefði staðið í frumv. frá upphafi.

Það er liðið á þing og menn eru farnir að vona, að þeir fari að sleppa úr þessu. Mál þetta er seint á ferð. Mig hefir það kostað mikinn tíma og mikið erfiði, svo að jeg hefi ekki getað borið málið undir eins marga þingmenn og jeg vildi. Kraftarnir hafa ekki hrokkið. En jeg vona, að svo gott samkomulag verði um þetta frumvarp, að hægt verði að afgreiða það fljótt. Þingtíminn er orðinn naumur, og gott líka að það geti komist sem fyrst í framkvæmd.

Jeg bið því háttv. forseta að hraða málinu með afbrigðum frá þingaköpunum, ef þess yrði kostur.