10.09.1915
Neðri deild: 56. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 1219 í B-deild Alþingistíðinda. (2013)

150. mál, bráðabirgðaverðhækkunartollur

Jóhann Eyjólfsson:

Þeir hafa nú komið hjer fram á völlinn, kapparnir þrír, til að segja okkur, þeim mönnum, sem styðja vilja frumvarp þetta, til syndanna. Það var sameiginlegt hjá þeim öllum, að þeir vildu halda því fram, að það hefði komið fram hjá okkur stefnubreyting. (Bjarni Jónsson: Tók þm. það til sín?). Jeg vil gjöra grein fyrir afstöðu minni til þessa máls; um aðra veit jeg ekki, en býst þó við, að það sje nokkuð lík afstaða margra annarra. Háttv. þm. Da.l. (B. J.) fór fyrir fylkingunni, eins og tíðkanlegt er um hina ólmustu kappa, að þeir fara jafnan fyrstir fram á völlinn. Hann lagði fyrstur út í, að vanda um við okkur, og byrjaði á því, að skýra það frá sínu sjónarmiði, að þetta væri sama frumv. sem það, er við feldum hjer á dögunum. Jeg lít svo á, að þetta sje alt annað frumv. Jeg lít svo á, að með þessu frumv, sje verið að reyna að bæta úr tekjuhalla landssjóðs, gjöra fje hans meira., svo að hann geti gjört tvent í einu, bæði unnið á tekjuhalla fjárlaganna og eina haft eitthvert fje til að grípa til í vandræðum. En frumv., sem kom fram um daginn, það var eins og þegar menn koma saman í hreppsnefnd til að jafna niður útsvörum, að eins til að skifta þeim niður aftur. Svo var það um daginn um þessi tvö frumvörp, sem bæði fjölluðu þá sameiginlega um þennan dýrtíðarskatt og dýrtíðarráðstafanir. Með þeim var ekki verið að hugsa um að bæta úr tekjuhalla landssjóð:, eða safna fje í hann, heldur að raka saman fje í óbilgjörnu augnamiði og moka því svo jafnharðan út á götuna. Í mínum augum var þetta frumv., sem til atkvæða kom, svo afskræmilegt, að það átti ekki betra skilið en að farið væri með það eins og gjört var Jeg er ekki á nokkurn hátt andvígur því, að eitthvað sje gjört til þess að auka tekjur landssjóðs. Síðan jeg fór að hugsa um þjóðmál, hefi jeg einmitt alt af haft augun opin fyr:r því, að ekkert sje þarfara, heldur en að reyna að finna einhverjar leiðir til þess.

Háttv. þm. Dal. (B. J.) sagði, að enginn tollur og engar tekjur, sem landssjóði fjellu í skaut, væru verri en útflutningsgjald, og að ekkert gjald væri til, sem reitti fátæklingana eins inn að skyrtunni eins og það. Hann fór mörgum fögrum orðum um það, hvað ljótt væri að fara illa með fátæklingana, og er jeg honum fullkomlega sammála um það. Hann varð næstum guðrækilegur, þegar hann var að tala um þetta. Ekki veit jeg hvort hann viknaði, en hann fór ákaflega fallegum orðum um það. (Bjarni Jónsson: Jeg var ekki svona mælskur). En nú er mjer spurn : Hvaða tekjustofn er það, sem að gagni getur komið og nær jafnt til alls almennings, sem ekki kemur að sínu leyti eina við hinn fátæka og hinn ríka? Við vitum t. d. að kaffi- og sykurtollur kemur engu síður niður á fátækum en ríkum. Það er meira undir því komið, hve maðurinn á mörg börn, hversu háan sykurtoll hann verður að greiða, heldur en því, hvort hann er fátækur eða ríkur. Eins er um þann skatt; sem lagður er á gripina okkar, hvort sem það eru nú hestar, kýr eða kindur, að hann kemur engu síður niður á þeim fátæka en þeim ríka. Jeg lít svo á, að ef til vill sje enginn gjaldstofn eins heppilegur og sanngjarn eins og einmitt útflutningsgjaldið.

Jeg tók það fram í upphafi, að jeg vildi lýsa afstöðu minni til þessa máls, og skal jeg nú leitast við að rökstyðja þessa skoðun mína. Það, sem gjörir . það að verkum, að þessi gjaldstofn er í mínum augum skynsamlegri og rjettmætari heldur en aðrir tollar, er það, að þessi tollur kemur niður á manninn eftir auðmagni hans. Það verður fullkomlega eins rjett, og rjettara, að leggja útflutningsgjald á afurðir landbúnaðarins, t. d. lifandi pening, heldur en að leggja skatt á búfjenað manna í landinu, og skal jeg sjerstaklega taka t. d. hestana. Hesturinn er ekki annað en verkfæri, rjett eins og skóflan og pállinn. En alt öðru máli er að gegna um þá hestana, sem fluttir eru út. Tel jeg ekki nema rjettmætt og sjálfsagt, að leggja á þá útflutningsgjald, því sá hluti hestanna, sem hafður er fyrir útflutningsvöru, getur gefið mikinn arð, og því haft talsvert skattþol, en aftur á móti eru þeir hestar, sem hafðir eru til heimavinnu arðlausir, eins og hver önnur verkfæri; það er bara undir ábýlinu komið, hvort mikið þarf af slíkum verkfærum, svo sem hvort það er langt á engjar og erfitt til aðdrátta.

Jeg sje ekki, að öllu rjettlátari mælikvarði fáist til þess, að gjaldið komi sanngjarnlegar niður en einmitt með útflutningstolli. Og þótt það sje óeðlilegt, að leggja skatt á framleiðslu í landinu, þá verður þetta gjald samt í mjög mörgum tilfellum rjettlátara en aðflutningsgjald. Jeg skal taka ósköp einfalt dæmi, til þess að sanna þetta. Hugsum okkur tvo menn, er halda úti sínu skipinu hvor. Þeir hafa haft alveg jafnmikinn kostnað til útgjörðarinnar báðir, og miðað við aðflutningsgjald hafa þeir þurft að greiða jafnháan skatt af öllu, sem til útgjörðarinnar hefir þurft. En hugsum okkur nú, að annar maðurinn stórgræði á sínu skipi, en fyrir hinn verði útgjörðin hreinasta drep. Er það þá sanngjarnt, að þessir menn greiði jafnháan skatt? Jeg segi nei. Skatturinn á vitanlega að vera hærri á þeim manninum, sem meira græðir. Það er sannarlegt rjettlætisspursmál, að skatturinn komi sem mest niður á menn eftir efnum og ástæðum, eftir getu og gjaldþoli.

Háttv. þm. Dal. (B. J.) var að gjöra gys að þessu frv. og spyrja, hvort ætti að hafa þetta fje til vega og brúargjörða og þvílíks. Jú, það er einmitt í þessu skyni, sem jeg óska að landssjóði geti aflast tekjur, og það til muna, og jeg vil svo nota þær til þess, að koma upp mannvirkjum og nauðsynjafyrirtækjum, en ekki kasta þeim í svanginn á gráðugum eyðsluseggjum, hverjir svo sem það eru, eða skifta því niður eins og sveitarútsvari á milli þurfamanna.

Háttv. þm. V.-Sk. (S. E.) var: ákaflega viðkvæmur, þótt hann viknaði ekki, eina og háttv. þm. Dal. (B. J.), og talaði um að þetta væri pólitískt flokksmál. Fyrir mjer hefir það ekki vakað þannig; jeg lít bara á, hvaða meðferð málið á skilið, og jeg veit heldur eigi til, að það sje pólitískt flokksmál fyrir öðrum; hann veit auðvitað best, hvernig hann lítur á það sjálfur í því tilliti. Hann kvað það hættulega braut, að leggja skatt á þessa aðalatvinnuvegi okkar. Því hefi jeg ekki öðru að svara en jeg hefi svarað háttv. þm. Dal. (B. J.). Sami háttv. þm. (S. E.) sagði, að þetta mundi draga úr framleiðslu í landinu. Því fer fjarri, að mjer detti í hug að svo verði, enda væri það undarlegt, að svona lágt gjald hefði áhrif á það, hvort menn fjölguðu eða fækkuðu fjenaði sínum. Jeg skal nefna herfilega háan skatt, 50 aura af kindinni, og er jeg samt viss um, að allir mundu fjölga ám sínum fyrir það, eins .og þeir gætu. Maður verður líka að treysta á það, að löggjafarvaldið verði ekki svo grunnhyggið, að leggja svo háan skatt á., að það dragi úr hugum manna, til þess að efla lífsatvinnu sína. Maður verður að treysta löggjafarvaldinu til að skilja aðstöðu sína í því tilliti. Annað mál er það, að leggja það gjald á, sem hægt væri að þola, en landssjóði samt öfluðust góðar tekjur á, einkum þegar gjaldinu er svo hagað, að það legst á eftir auðmagni einstaklinga. Háttv. þm. (S. E.) var hræddur um að svo færi, að skattur þessi yrði fastur skattur í framtíðinni, og tók til dæmis kaffi- og sykurtollshækkunina, sem að eins átti að vera til tveggja ára. En þennan skatt varð að framlengja, vegna þess, að tekjur vantaði til nauðsynlegra útgjalda, — álítur, að þennan skatti eigi þannig að svíkja inn á gjaldendur, sem þeir verði svo nauðugir undir að búa.

Annara kemur mjer þetta undarlega fyrir, þegar jeg lít til þeirra, háttv. þm. Dal. (B. J.) og háttv. þm. V.-Sk. (S. E.), sem hafa staðið fremst allra í flokki þeirra manna, er vilja veita mikið fje úr landssjóði. Auðvitað sýnir þetta, hve miklir hugsjóna- og framkvæmdamenn þeir eru, en þeir hljóta að sjá, að það tjáir ekki fyrir þá, ef þeir vilja koma fram þessum hugsjónum, að þrykkja niður útgjöldunum og fara illum orðum um þá menn, sem vilja afla landssjóði frekari tekna. Jeg kannast við, að jeg er að nokkru leyti fjelagsbróðir þeirra, að því leyti, að mig langar til, að sem mest sje unnið nytsamlegt í landinu, og jeg fylgi þeim oft að málum og drýgi þar með syndir mínar; en nú þrýtur mig að verða þeim samferða. Það er víst af því, að jeg er ekki eins mikill hugsjóna- og ráðdeildarmaður og þeir, að jeg sje ekki ráð til að gjöra mikið og margt af engu. Jeg sje ekkert ráð til þess, að koma þessum verkum í framkvæmd, annað en að auka tekjur landssjóðs. Jeg hefi oft sjálfur verið talsvert stórhuga sem einstaklingur, en mjer hefir aldrei dulist það, að jeg hefi orðið að leggja á mig talsverða bagga, til þess að framkvæma áhugamál mín. Sama gildir um þjóðina sem heild, að hún verður að leggja á sig þunga bagga til að koma áfram áhuga- og nauðsynjamálum sínum.

Þá kem jeg að þriðja kappanum, háttv. 2. þm. S.-Múl. (G. E.). Flest af því, er hann sagði, er svo, að ekki þarf að taka það til bæna; ýmist var það upptugga eftir flokksbræður hans, eða svo, að ekki þarf að svara því. Hann var að tala um einhverja stefnubreytingu, en það er þegar sýnt fram á það, að um slíkt er ekki að tala. Hann tók undir með háttv. þm. V.-Sk. (S. E.), að menn væru hjer að leika »komedíu«.

En það eru svo margir, sem feldu frumvarpið um daginn, og flestir eru þeir nú með þessu frumvarpi, Svo það fara þá að gjörast nokkuð margir leikarar á þinginu; en annara sá jeg hvorki þá, nje sje enn, neinn leikarasvip á andliti nokkurra þessara manna. Mjer virðist þvert á móti, að þeir fylgi þessu frumvarpi með alvöru og staðfestu, án nokkurs loddaraskapar. Hann sagði, að frumvarp þetta skapaði misrjetti milli landbænda og sjávarútvegsmanna. Mjer er kunnugt um það, að það var reynt, að hafa gjaldið eina rjettlátt og hægt var, en vitanlega verður aldrei hjá því komist, að ein stjettin borgi meira en önnur, af því að hún framleiðir meira, eða er ríkari. Það er enginn ójöfnuður. Að vísu er það rjett, að mikið af ullinni er þegar flutt út úr landinu, svo það kemur sveitamanninum til góða. En um fiskinn er alveg sama máli að gegna, og lög, eins og þessi, er aldrei hægt að gjöra svo úr garði, að ekki falli eitthvað undan. Hve mjúklega þau koma í svipinn niður á einstaka menn, er undir ýmsum atvikum komið, hve nær þau ganga í gildi og fl.