10.09.1915
Neðri deild: 56. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 1228 í B-deild Alþingistíðinda. (2015)

150. mál, bráðabirgðaverðhækkunartollur

Matthías Ólafsson:

Jeg stend upp til þess að leiðrjetta misskilning, sem allmjög bólar hjer á. Hjer er alt af verið að tala um útflutningstoll, og það, að verið sje að fjefletta fátæklingana. Þetta er ekki rjett. Hjer er að ræða um gróðatoll, toll af hagnaði, sem menn hafa ekkert haft fyrir að fá, heldur hendingin hefir veitt þeim, öðrum til örðugleika. Hjer er um alveg sams konar tilfelli að ræða, sem það, ef maður nokkur fyndi sjóð í jörðu, og af honum væri tekið eitthvað til almennra þarfa. Þó er mjög hátt verð sett á vöruna, áður en ætlast er til, að greitt verði gjald af henni. Jeg býst við, að jeg þurfi oft að standa frammi fyrir þeirri stjett, sem mjer stendur næst, og um það er jeg sannfærður, að fyrir öllum sanngjörnum mönnum í þeirri sjett mun jeg geta varið það, að landið fái að njóta ofurlítils af þeim höppum, sem þeir verða fyrir.

Jeg ætla nú að skýra fyrir mönnum með dæmi, hvernig þessi tollur kemur niður.

Háseti á fiskiskipi dregur um árið, og er þó ekki meira en meðal afli, 5000 af góðum fiski, þar af 2000 um vetrarvertíðina, en 3000 um sumartímann. Af þessum afla fær hann helminginn sjálfur í hlut, og er það um 20 skipund, eða með 115 kr. verði á skipundi 2300 kr. Kostnaður, salt, verkun o. fl. nemur. 230 kr., svo að eftir verða 2070 kr. hreinar tekjur. Mismunurinn á normalverðinu, sem til er tekið í frv., og söluverði með áður um getnu 115 kr. verði á skipundi, er 460 kr. Af þeirri upphæð, 460 kr., á hann svo að greiða 3% í landssjóð, eða alls kr. 13,80. Þetta er nú alt og sumt. En lítum nú á tekjur sama manns með því verði, sem er normalverð í frv., og reyndar svo óvenjulega hátt sett, að þess eru varla dæmi, að fiskur hafi komist í svo hátt verð. Þetta normalverð er 92 kr. skippundið. Tekjur hans mundu þá verða 1610 kr. eða 436 kr. minna, þrátt fyrir það, að hann hefir greitt þetta útflutningsgjald, kr. 13,80. Það er þess vegna áreiðanlegt; að fiskimaðurinn stendur miklu betur að vígi í þessu ári en ella, og getur því vel staðið sig við að láta landasjóð hafa ofurlítinn skerf af gróða þeim, sem hann hefir ekkert gjört til þess að afla, frekar nú en endranær.

Menn sjá því, að hjer er algjörlega ranglega talað um, að verið sje að leggja fjeflettingarskatt á þjóðina. Enda eru svo fáránlegar kenningar andmælanda frv., að þær eru hver á móti annarri, þar sem þeir segja í öðru orðinu, að frv. fjefletti landsmenn, en í hinu, að ekkert gagn sje í frv. fyrir landasjóðinn. Þetta er hvað á móti öðru. Þetta er ekki að fara ráðvandlega með málið. Til þess mætti þó ætlast, að menn færu hugsunarrjett með orð sín: Það eitt er rjett ályktun, að ef tollurinn er landssjóði lítils virði, þá kemur hann eðlilega ljett niður á mönnum. Háttv. andmælendur hafa verið að vefa um það, að útlenda varan væri dýr, En einmitt þess vegna eru vorar innlendu vörur í svo háu verði. Það er enginn efi á því, að þegar öll höf opnast, skipaleiga lækkar og menn geta óhindraðir flutt vörur landa á milli, þá lækka afurðirnar í verði á heimsmarkaðinum, og þá þurfum vjer ekki lengur þenna toll, þessa hjálp í viðlögum.

Gagnvart háttv. 2. þm. S.-Múl. (G. E.) skal jeg geta þess, að hlutir vestra á smábáta hafa numið um 300 kr. frá miðjum maí til júlíbyrjunar, og jeg býst ekki við, að minna hafi aflast á Austurlandi. Jeg sá það í blöðunum nýlega, að bændur í Flatey á Skjálfanda yrðu nú að gjalda kaupamönnum 50 kr. um vikuna, vegna þess, hve ákafir þeir voru til sjósóknar fyrra hluta sumars. Þetta, að draga sláttinn svo lengi, mundu þeir ekki hafa gjört, ef það hefði ekki borgað sig. Því verður ekki neitað, að þetta ár er yfirleitt eitt hið mesta veltiár til sjávar og sveita, og er mjer fyrir mitt leyti ómögulegt að ætla framleiðendunum þann kindarhátt að sjá ofsjónum yfir 3% af gróða sínum eða höppum.