10.09.1915
Neðri deild: 56. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 1233 í B-deild Alþingistíðinda. (2017)

150. mál, bráðabirgðaverðhækkunartollur

Bjarni Jónsson:

Jeg vona, að jafnvel sá ágæti 1. þm. Rang. (E. J.) fyrirgefi mjer, þótt jeg svari einstaka orðum, sem hann mæltu til mín mjer til heiðurs, öðrum til ánægju og sjálfum þeim til sæmdar, fyrir þá miklu mælsku og þekking, sem þar lýsti sjer.

En áður jeg þakka þessum mönnum fyrir mig, þá ætla jeg mjer að gjöra þá fyrirspurn til háttv. flutningsmanna, hvort þeim þyki ekki rjett, að gefa út orðabók með frv., fyrst þeir geta ekki lengur látið sjer nægja þeirra eigna tungu, til þess að semja frumv. á; það er hætt við, að ella skilji ekki allir þetta cif og fob í frv. Það var leitt, að flutningsmennirnir settu ekki cob og fob, svo að rím væri í.

Þá sný jeg mjer að háttv. þm. V.- Ísf. (M. O.). Hann sagði, að vjer, andmælendur þessa frv., vildum sporna við því, að landið fengi tekjur, til þess að bjarga mönnum úr vandræðum. Það er undarlegt að heyra þessi orð frá háttv. þingmanni, þar sem hann veit þó, að jeg hefi borið fram frumv., sem veitir landssjóði sömu tekjur, en miklu rjettlátlegar niður jafnað.. Þetta er að fara óráðvandlega með orðum sínum, og ýti jeg af mjer þessum áburði hans, og munu fleiri gjöra sama. Hann og aðrir leggja mikla áherslu á það, að þessi verðgróði landsmanna sje þeim að þakkarlausu. Satt er það, að ekki hafa þeir komið stríðinu af stað. En það eru fleiri, sem græða sjer að þakkarlausu, t. d. er það sjómönnum gróði, að góðar sjeu gæftir; líka er þeim það að þakkarlausu, er þeir fiska vel, því að ekki hafa þeir teymt fiskinn inn á miðin. Yfirleitt eru flest höpp að þakkarlausu þeim; sem fyrir verða.

Sami háttv. þingmaður (M. Ó.) sagði, að hjer væri ekki um toll að ræða. Hann gleymir því, að í frumv. er fyrirsögnin um »verðhækkunartoll«. Hann gleymir því enn fremur, að útgjörðar kostnaður hefir hækkað, og frá landbúnaðinum gleymir hann að draga óhöppin, í fyrra.

Þá sný jeg mjer að þeim, sem af mestum móði talaði, háttv. 2, þm. Rang. (E. P.). Hann taldi frumv. vel undirbúið. Það er rjett, að svo vel er það undirbúið, að hann og aðrir hafa spyrt sig saman um það, að berja það fram, og látið þó suma þingmenn ekkert um það vita, hvað til stæði. En alt skal þetta rakið á öðrum stað með athuga- semdum um frumvarpið, sem ekki er betur undirbúið en svo, að maður, sem betra skyn ber á þessi mál en flutningsmenn, hefir skrifað þeim brjef um málið, og átalið flaustrið, og sýnt fram á misfellurnar. Það er og orða sannast, að óhæft er að knýja málið svo fram með þingsafglöpum, — jeg bið forláts, afbrigðum vildi jeg sagt hafa — það er til þess eins, að menn sjá ekki, hver vansmíði eru á frv.

Háttv. 2. þm. Rangv. (E. P.) talaði margt því til sönnunar, að grundvöllurinn væri ekki sá sami sem í því frv., sem drepið var um daginn. Hann vildi með þessu tali sínu sanna stefnufestu sína. Það er ekki til neina fyrir hann, að berja höfðinu við steininn, eins og hann gjörir. Stefnumunurinn er enginn í þessu frumv. frá því, sem var í frumv. um daginn. Grundvöllurinn er alveg sá sami. Það er og verður óhrakið, að tilgangurinn með þessu frumv. er alveg sá sami, sem með frumv. um daginn, að undanskildu því, að þá var komið með frumv, til þess að ráða fram úr vandræðum, sem leiddi af misæri, en nú er það ekki meiningin, heldur það eitt, að fylla landssjóðinn. Það er ekki meiri halli nú á fjárlögunum en oft hefir verið áður, og hafa þó tekjurnar venjulega hrokkið fyrir útgjöldunum. Tekjuáætlunin er ekki óvarlegri en oft hefir verið áður, svo að öll ástæða er til að ætla, að tekjurnar hrökkvi enn fyrir útgjöldunum. Mjer finst það vera ærið djarft af mönnum, sem sífelt eru að stagast á því, að hallæri sje í landinu, að fara nú að leggja nýja skatta á þjóðina, til þess að jafna þenna tekjuhalla, sem hvergi er til, nema í þeirra eigin hugskoti.

Jeg tel það víst, að háttv. 2. þm. Rang. (E. P.) hafi talað eins og hann gjörði til þess að reyna að »slá sjer upp«. Jeg get trúað honum fyrir því, að honum tókst það mjög ófimlega., enda ekki von að neinn slái sjer upp á því, að vera með því, sem ilt er. Jeg veit hins vegar að við sláum okkur upp á að vera á móti því, sem rangt er, eins og þetta frumv. Þó skal jeg taka það fram, að jeg er ekki á móti þessu máli til þess að slá mjer upp, heldur af því, að jeg álít þessa aðferð ranga, til þess að efla landssjóði tekna, sem enga nauðsyn ber til að fá inn, því að eins og jeg hefi sagt eru allar líkur til, að tekjurnar hrökkvi fyrir útgjöldunum. Háttv. þingmaður sagðist trúa því, að þjóðin fylgdi þeim að málum, sem vildu fá komið þessu frumv, fram. Hann má fyrir mjer trúa hverju sem hann vill, en jeg trúi því ekki, að þjóðin þakki vel fyrir að demba á hana sköttum, þegar ekki er þörf á því. Og það á sama tíma, sem verið er að tala um, að hallæri sje í landinu.

Þá kem jeg að ræðu háttv. þm. Mýr. (J. E.). Hann fóðraði sína stefnubreytingu á sama hátt og háttv. þm., sem jeg talaði um síðast (E. P.). Hann sagði að þessi skattur væri lagður á til þess að varna misæri í landinu o. s. frv. Þetta gamla stagl, sem allir þekkja. Hann veit vel að þetta er ekki satt; hann veit það vel, að þetta frumv. er ekki komið fram til þess, að gjörðar verði nokkrar varnir til þess að fyrirbyggja það, að hallæri geti orðið í landinu, heldur einungis af þeirri ástæðu, að menn vilja afla landssjóði tekna. Hann byggir því skoðanaskifti sín á ósannindum einum.

Þessi sami háttv. þm. (J. E.) sagði það í ræðu sinni, að útflutningstollur væri rjettlátastur af öllum sköttum, því hann kæmi svo jafnt niður á alla. Það sjá allir, án þess að jeg leiði rök að því, hvaða vitleysa þetta er, og skal jeg ekki eyða orðum að því frekar. Jeg býst við að háttv. þm. Mýr. hafi ekki hugsað út i, hvað hann var að segja.

Sami háttv. þingmaður talaði um, að verra væri að leggja skatt á hross en á menn. En hvað segir hann um að leggja skatta bæði á menn og hross? Annars kom þessi kafli ræðu hana ekkert málinu við.

Þá kem jeg næst að þessum ódauðlega ræðusnillingi, háttv. 1. þm. Rang. (E. J.). Jeg skal játa það, þótt spaugilegt sje, að fyrri hluti ræðu hans var langbestur af öllu því marga og mikla, sem sagt hefir verið um þetta mál hjer í deildinni. Hann játaði það hreinskilnislega, að hann hefði breytt um stefnu frá því um daginn, en fóðraði það með því, að hann vildi sýna, að hann væri enginn grútur, sem ekki tímdi að leggja fje af mörkum, en hvort kjósendur hans þakka honum fyrir að fara þannig með þeirra fje, læt og ósagt. Það má geta þess, að það er ekki að furða, þótt ræða hans sje best allra, því að hann er áreiðanlega sá þingmaður, sem hlustað er á með mestri ánægju hjer á Alþingi, enda hafa kjósendur hans sýnt, að þeir kunna að meta hæfileika hans, því að þeir hafa jafnvel sett hann ofar en hinn, sem talaði áðan af mestri andagift.

Það var eitt, sem var gott í ræðu þessa háttv. þingmanna, og það var það, hve glöggur reikningur var gjörður þar yfir verðhækkunina.

Hann sýndi fram á, að ef hagur eins bónda væri talinn að vera 900 kr. og svo væri lagður á þessar krónur verðlækkunarskattur, þá væri það ekki rjett, því að það, sem hann þyrfti í búið, væri að minsta kosti 500 kr. dýrara en það var áður. Auk þess sýndi hann fram á, að 400 kr. sem eftir eru, gjöra ekki meira en hrökkva fyrir því, sem skaðinn nam í fyrra, og því ætti að draga það frá, en þá er komið að því, sem jeg hefi haldið fram að leggja eigi á tekjur manna. Það er auðvitað, að margir eru svo fátækir, að ekki er hægt að leggja neitt á þá, en því meira eiga hinir ríkari að bera af gjöldunum. Það er alveg ómótmælanlegt, að tekjuskattur er sá rjettasti skattur, sem, hægt er að leggja á þjóðina. Þar er ekki lagt á framleiðsluna, heldur á hreinan gróða manna.

Jeg skal nú ekki tala meira um þetta blessað frumv. að sinni, en enda ræðu mína á því, að þakka háttv. 1. þm. Rang. (E. J.) fyrir skemtilegasta hlutan af ræðu hana. Jeg get vel fyrirgefið honum, þótt hann saumaði talsvert að mínum spjörum, því að jeg hafði vel unnið til þess, svo vel sem jeg gekk frá honum við eina umr, fjárlaganna hjer í deildinni. Hann fann að því við mig, hvað jeg talaði mikið. Það mái vel vera satt, að jeg tali mikið og skifti mjer af mörgu, en jeg er víst ekki orðinn nógu mentaður til þess, að kunna þá list, að menn sitji hjer á bekkjunum með plástur á munninum og greiði leynilega atkvæði.

Jeg ætla að biðja háttv. þingm. þess, að gjöra ekki alvöru úr því, sem hann hótaði, að skora á Dalamenn, að kjósa mig ekki oftar á þing. Það gæti orðið mjer hættulegt.