10.09.1915
Neðri deild: 56. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 1240 í B-deild Alþingistíðinda. (2019)

150. mál, bráðabirgðaverðhækkunartollur

Sigurður Eggerz:

Mjer hafa dottið í hug í kvöld, þegar jeg hefi verið að hlýða á umræðurnar hjer, sjerstaklega ræður háttv. 2. þm. Rang. (E. P.), háttv. þm. V.-Ísf. (M. Ó.) og háttv. þm. Mýr. (J. E.) vissir hlutir, sem kallaðir voru »tabu«, eða helgir, hjá villimönnunum. Ef einhver kom nálægt þeim, þá, urðu villimennirnir tryltir. Ef komið er nálægt þessu tollafrumvarpi hjer, þá sýnist mjer það hafa lík áhrif á suma háttv. deildarmenn. Tollálagan á framleiðsluna er orðin »tabu« hjá vorum mönnum.

Jeg get skírskotað til deildarinnar, hvort jeg hafi við haft nokkurt óþinglegt orð við nokkurn þingmann hjer í háttv, deild. Sú synd, sem jeg á að hafa drýgt, er þetta, að jeg held því fram í málinu, sem jeg tel vera rjettast, og aðdróttunin, sem kom hjer fram hjá einum háttv. þingm., um að vjer, sem á móti frumvarpinu værum, værum að því í því skyni, að vjer vildum slá oss upp á því, er dálítið spaugileg, þar sem það er kunnugt, að búið er að mynda hjer órjúfanlegan hring í kringum frumvarpið. Og þeir, sem þekkja meiri hluta aðdráttaraflið hjer í þinginu, vita, að jafnvel rökin eru ómáttug til að rjúfa slíkan hring.

Háttv. flutningsm. þessa máls (P. J.) talaði á þá leið, að jeg hefði haldið því fram, að það hefði verið gjört að flokksmáli, miljónafrv. svo kallaða, sem var felt hjer í deildinni á dögunum. Þetta er alveg gagnstætt því, sem jeg hjelt fram. Þeir, sem feldu frv., voru bæði stuðningsmenn og andstæðingar stjórnarinnar, því frumvarpið var svo frámunalega óviturlegt, að jafnvel stuðningsmönnum stjórnarinnar blöskraði það.

Ástæðan til þess, að jeg greiddi atkvæði á móti nefnd og 2. umræðu, var sú, að jeg vildi ekki á nokkurn hátt leggja tolla á þá gjaldstofna, sem um var að ræða. Þetta tók jeg svo skýrt fram hjer í deildinni í dag, að jeg ætlaðist til, að það yrði ekki misskilið.

Það er vitanlegt, að þó frumvarpið væri óþolandi eins og það var, þá hefði mátt laga það í nefnd, svo framarlega sem menn hefðu viðurkent þörf á auknum tollum, og getað fallist á þessa tollstofna.

Háttv. þm. Mýr. (J. E.) sagði áðan, að hann vildi einmitt hafa toll á þessum vörum. Þegar jeg heyrði þessi orð háttv. þingmanns, stórfurðaði mig á því, að hann skyldi greiða atkvæði með því að fella miljónafrv. frá nefnd.

Háttv. flutnm. (P. J.) gat þess, að hann hefði ekki viljað vera að argast við Sjálfstæðisflokkinn, af því að hann hefði haft svo mikið að gjöra. Þótt hann hafi haft mikið að gjöra, þá hafði hann tíma til að leggja málið fyrir hina flokkana í þinginu. Ef nokkuð væri, sem benti á pólitík í þessu máli, þá er það einmitt þetta, að einum flokki er haldið fyrir utan. Jeg verð að segja það aftur, að þegar þingsályktunartillagan um kornkaupin var feld hjer í deildinni, þá var sett pólitík í málið. Flestar þjóðir halda þess háttar málum fyrir utan flokkapólitíkina, og það ættum við sannarlega að gjöra líka.

Jeg held að háttv. þm. Dal. (B. J.) hafi hrakið flest það, sem háttv. andstæðingar okkar hafa borið fram, og vil jeg því ekki þreyta deildina með því að taka það alt upp aftur. Jeg get látið mjer nægja að vísa til þess,, sem jeg sagði í ræðu minni í dag. Annars verð jeg að segja, að mig furðaði a því, hve háttv. 2. þm. Rangv. (J. P.) talaði undarlega æst í þessu máli. Jeg veit ekki, hver orð mín hafa gefið honum ástæðu til að verða svona reiður, nema ef vera skyldi það, sem jeg gat ekki komist hjá að minnast á, að hjá þessum mönnum, sem feldu miljónafrumv. um daginn, hefði orðið stefnubreyting. Jeg er ekki að ámæla þeim fyrir það. Það kemur svo oft fyrir í lífinu, að menn skifta um skoðanir. Það getur svo sem verið, að þeir hafi komist að annari niðurstöðu við frekari umhugsun. En annars vil jeg benda háttv. 2. þingm. Rang. (E. P.) á það, að það er æskilegt, að þingmenn gæti stillingar í ræðum sínum. Og jeg vænti þess, að hann, sem samkvæmt stöðu sinni á að vera fyrirmynd í allri prúðmensku, og temja sjer guðrækilegt hjartalag, temji nú svo ástríður sínar, að hann kasti sjer ekki jafnhranalega út í umræðurnar, eins og hann gjörði áðan. Mjer fellur það þungt, eftir að jeg hefi kynst háttv. þingm., að sjá reiðina umhverfa honum svo ókristilega.

Háttv. þingm. (E. P.) var að tala um hinn fallanda fjárhag landsins. Þetta leyfir háttv. þingm. sjer, sem hefir verið í fjárlaganefnd, og því haft góð tæki á að kynna sjer fjárhaginn, að segja. Þetta stingur í stúf við það, sem hæstv. ráðherra hefir látið um mælt, að fjárhagur landsinss sje yfirleitt í góðu lagi. Það er annars einkennilegt, að tala um fallanda fjárhag nú, þegar það er vitanlegt, að landið græðir stórfje. Því að svo framarlega sem það er rjett, að þeir græði, sem stunda sjávarútveg og landbúnað, þá er það um leið gróði fyrir landið í heild sinni og landssjóðinn. Því hvað ber þetta land uppi, ef ekki sjávarútvegurinn og landbúnaðurinn. Og þess vegna er það svo hrapalegt, að menn skuli ekki skilja, að þeir eiga að greiða veg þessara atvinnuvega, en ekki draga úr þeim með óþörfum tollum.

Það sýnir best, hvað mikill glundroði er kominn í þetta mál, að engum lifandi manni hefir dottið í hug að spyrja stjórnina, hvað mikið fje hún þurfi, og mjer vitanlega hefir stjórnin ekki heldur lýst yfir neinu um það. Það ætti þó að vera það fyrsta, sem um væri spurt, hvað mikið fje vantaði til að bjarga landinu sómasamlega, ef til vandræða horfði. Nú er verið að tala um, að hjer eigi að gjöra eitthvað annað við tollinn, sem kemur eftir þessu frumv., heldur en tollinn eftir hinu frumv. Það stendur ekkert um það hjer, og jeg gjöri ráð fyrir, að það liggi nokkuð líkt til grundvallar fyrir báðum frv.

Yfirleitt er það furðulegt, hvað hinn mikli meiri hluti fer geist af stað í vörnum sínum fyrir frumv. Þeir hafa vonda samvisku, og því hafa þeir svo hátt, vilja hafa svo hátt, að þeir heyri ekki neitt til samviskutetursins. En þeir verða að tala enn þá hærra, ef þeir halda, að þeir geti talið þjóðinni trú um að það sje heppilegt fyrir hana að tolla aðalatvinuuvegi sína. En hver veit hvað þeim tekst?

Jeg mun nú ekki við þessa umræðu tala frekar um þetta mál, en jeg er staðráðinn í að greiða atkvæði á móti því. Ef hæstv. ráðherra getur sannfært mig um, að brýn nauðsyn sje á., að afla aukinna tekna fyrir landasjóðinn, þá myndi jeg vilja greiða atkvæði með einhverjum öðrum tollalögum, sem bygðust á öðrum grundvelli en þetta frumvarp.